Getum verið stoltir af frammistöðunni

Sverrir Ingi Ingason sækir að Eden Hazard í kvöld.
Sverrir Ingi Ingason sækir að Eden Hazard í kvöld. AFP

„Þeir skapa sér eiginlega ekkert í fyrri hálfleik og fram að fyrsta markinu voru engin dauðafæri. Hannes þurfti ekki að verja mikið,“ sagði Sverrir Ingi Ingason í samtali við mbl.is eftir 0:2-tap íslenska landsliðsins í fótbolta gegn Belgum í Þjóðadeildinni í kvöld. 

Þrátt fyrir tapið var Sverrir heilt yfir ánægður með frammistöðuna og hrósaði hann ungu leikmönnum liðsins sérstaklega, en leikmenn á borð við Albert Guðmundsson og Arnór Sigurðsson fengu tækifærið í kvöld, vegna mikilla meiðslavandræða. 

„Við náðum að vera hættulegir í skyndisóknum, en það vantaði herslumuninn að skapa okkur fleiri færi. Það vantar vissulega mikið af leikmönnum og við misstum Alfreð líka rétt fyrir leik. Það virðist ekki ætla af okkur að ganga þessa dagana.

Við getum verið stoltir af frammistöðunni og ungu strákarnir sem komu inn voru flottir og stækka klárlega hópinn hjá okkur. Það er gott fyrir hópinn að allir fengu alvöruleik og vonandi fengum við góð svör.“

Ísland leikur vináttuleik við Katar í Belgíu á mánudaginn kemur og vill Sverrir sjá áframhaldandi bætingu á spilamennskunni. 

„Frammistaðan á móti Sviss og Frökkum í síðustu landsleikjum var mun betri en í fyrstu landsleikjunum. Frammistaðan í dag var svo góð og við þurfum að halda þessu áfram á móti Katar og ná í sigur,“ sagði Sverrir Ingi Ingason. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert