Óþarfi að mála skrattann á vegginn

Kári Árnason
Kári Árnason AFP

Ef að líkum lætur verður nóg að gera hjá Kára Árnasyni og félögum hans í íslensku varnarlínunni þegar þeir etja kappi við frábært lið Belga í lokaleik sínum í Þjóðadeild UEFA í knattspyrnu í Brussel í kvöld.

Kári mun örugglega standa vaktina í hjarta varnarinnar en miðvörðurinn hefur verið í stóru hlutverki með landsliðinu undanfarin ár og leikur í kvöld sinn 72. landsleik.

„Ég held að það sé óhætt að segja að það verður nóg að gera fyrir okkur varnarmennina í leiknum gegn Belgunum. Það vantar marga mikilvæga leikmenn í okkar lið en þá opnast bara tækifæri fyrir aðra eins og gengur og gerist í þessu. Við höfum kannski ekki mikið að spila fyrir í þessum leik og við getum því farið afslappaðir inn í hann vitandi það að þetta er annað tveggja bestu liða í heimi í dag. Þetta verður erfitt en gaman,“ sagði Kári í samtali við Morgunblaðið í gær.

Miklir fótboltahæfileikar hjá þessum strákum

Kári, sem er aldursforsetinn í liðinu, 36 ára gamall, segist ekki muna á löngum ferli sínum með landsliðinu aðra eins meiðslahrinu og gengið hefur yfir liðið á síðustu dögum og vikum.

„Við höfum verið heppnir með meiðsli í gegnum tíðina og það hafa aldrei verið fleiri en einn eða tveir leikmenn frá hverju sinni. En við erum að vonast til þess að þeir ungu strákar sem eru komnir inn í hópinn séu klárir í bátinn. Einhverjir þeirra fá tækifæri á móti Belgunum. Það eru miklir fótboltahæfileikar hjá þessum strákum en landsliðsfótbolti er svolítið öðruvísi. Þú mátt ekki gleyma þér í eina eða tvær sekúndur – þá er þér refsað. Þetta snýst mikið um einbeitingu. Við vissum að í Þjóðadeildinni yrði þetta erfitt fyrir okkur og hlutirnir hafa ekki alveg gengið sem skyldi. Það er samt algjör óþarfi að mála skrattann á vegginn. Við erum að stilla saman strengina með nýjum þjálfara og það hefur verið margt jákvætt í síðustu tveimur leikjum sérstaklega. Það er mikið verið að tala um að partíið sé búið en kjarninn í liðinu er það sterkur og reyndur að við eigum að geta haldið uppi ungum og óreyndari leikmönnum. Vissulega er það erfitt þegar svona margir eru meiddir en ég hef engu að síður trú á liðinu og við erum til alls líklegir,“ sagði Kári.

Nánar er fjallað um leik Íslands og Belgíu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert