Þetta var ólýsanleg tilfinning

Arnór Sigurðsson fylgist með Aroni Einari Gunnarssyni sækja að Eden …
Arnór Sigurðsson fylgist með Aroni Einari Gunnarssyni sækja að Eden Hazard í kvöld. AFP

Skagamaðurinn Arnór Sigurðsson spilaði í kvöld sinn fyrsta landsleik er Ísland mátti þola 0:2-tap fyrir Belgíu í Þjóðadeildinni í fótbolta. Arnór var afar stoltur og sérstaklega ánægður að fá að vera í byrjunarliðinu. 

„Þetta var ólýsanleg tilfinning. Ég er þvílíkt stoltur og það er heiður að spila fyrsta landsleikinn. Ég var þvílíkt spenntur og það var enn betra að fá að byrja leikinn. Ég fékk að vita í gær að ég væri að fara að byrja, svo það var tími til að undirbúa sig.“

Hann var sáttur með frumraun sína með A-landsliðinu, gegn gríðarlega sterkum andstæðingi. 

„Ég er ánægður með mína frammistöðu í leiknum og frammistaðan hjá liðinu í heild sinni var góð, þótt við fengjum tvö mörk á okkur. Þeir voru ekki að fá mikið af færum. Við vissum fyrir fram að þeir yrðu mikið með boltann og við vissum hversu góðir þeir væru.“

Ísland mætir Katar í vináttuleik á mánudaginn kemur og vill Arnór skilja við árið 2018 með sigri. 

„Við skoðum leikinn í dag og sjáum hvað við getum gert betur og hvað við gerðum vel til að koma sem sterkastir inn í leikinn á móti Katar, sem við stefnum á að vinna. Það er mikilvægt að fara inn í nýtt ár með sigri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert