Þurfa ekki að kljást við Lukaku

Romelu Lukaku fagnar marki gegn Íslendingum á Laugardalsvellinum í september.
Romelu Lukaku fagnar marki gegn Íslendingum á Laugardalsvellinum í september. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslendingar þurfa ekki að kljást við framherjann Romelu Lukaku þegar þeir mæta Belgum í lokaleik sínum í Þjóðadeild UEFA í knattspyrnu í Brussel í kvöld.

Lukaku hefur verið að glíma við meiðsli síðustu vikurnar og Roberto Martinez landsliðsþjálfari Belga vill ekki taka áhættu með því að tefla honum fram í kvöld heldur hafa hann kláran í slaginn á sunnudaginn þegar Belgar sækja Svisslendinga heim í lokaumferðinni.

Lukaku er markahæsti leikmaður belgíska landsliðsins frá upphafi en hann hefur skorað 45 mörk í 79 leikjum og hefur skorað 4 af 5 mörkum Belga í Þjóðadeildinni, tvö gegn Íslendingum og tvö á móti Svisslendingum. Framherjinn stóri og stæðilegi hefur hins vegar átt erfitt uppdráttar með liði Manchester United síðustu vikurnar en honum hefur ekki tekist að skora í 10 leikjum í röð fyrir Manchester-liðið.

Michy Batshuayi, sem leikur með spænska liðinu Valencia, tekur stöðu Lukaku í kvöld en hann hefur skorað 10 mörk í 20 leikjum með belgíska landsliðinu.

Belgar eru með 6 stig eftir tvo leiki, Svisslendingar 6 stig eftir þrjá leiki en Íslendingar eru án stiga eftir þrjá leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert