Skagamaður númer 80 í A-landsliði

Arnór Sigurðsson.
Arnór Sigurðsson. AFP

Framleiðsla á frambærilegum leikmönnum heldur áfram í knattspyrnubænum Akranesi en Skagamaðurinn Arnór Sigurðsson lék sinn fyrsta A-landsleik í gær, eins og fram hefur komið, þegar Ísland tapaði 2:0 fyrir Belgíu. 

Staðarmiðillinn Skagafréttir greinir frá því í dag að Skagamennirnir sem leikið hafa A-landsleiki í knattspyrnu séu þá orðnir áttatíu talsins ef talið er hjá báðum kynjum. 

Miðillinn vísar til bókhalds hjá Jóni Gunnlaugssyni, fyrrverandi leikmanni ÍA og stjórnarmanni í KSÍ, sem iðinn hefur verið við að skrásetja ýmislegt er tengist knattspyrnunni á Akranesi. 

Þess má geta fyrir áhugafólk um ættfræði að móðir Arnórs, Margrét Ákadóttir, lék fyrir A-landslið Íslands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert