Sú leikjahæsta með nýjan samning

Sandra Sigurðardóttir í leik með Val.
Sandra Sigurðardóttir í leik með Val. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Sandra Sigurðardóttir, leikjahæsta konan í sögu úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu hér á landi, hefur framlengt samning sinn við Val um tvö ár, eða út tímabilið 2020. Þetta kemur fram á Facebook-síðu knattspyrnudeildar Vals.

Sandra, sem er 32 ára markvörður, hefur leikið 262 leiki í deildinni, þar af alla 54 leiki Vals frá því hún kom til félagsins frá Stjörnunni fyrir tímabilið 2016. Hún lék 170 leiki fyrir Stjörnuna í deildinni frá 2005 til 2015, skoraði eitt mark, og vann þar þrjá Íslandsmeistaratitla og þrjá  bikarmeistaratitla. Áður hafði Sandra leikið 38 leiki með liði Þórs/KA/KS í deildinni á árunum 2001 til 2004. Sandra hefur verið í íslenska landsliðshópnum um árabil og spilað 19 landsleiki.

Þá hafa systurnar Hlín og Málfríður Anna Eiríksdætur framlengt samninga sína við Val. Hlín er 18 ára og lék fyrstu sex A-landsleiki sína á þessu ári en á að baki 40 leiki með yngri landsliðunum. Þá hefur hún þegar leikið 46 leiki með Val í efstu deild og skorað 6 mörk.

Málfríður Anna er 21 árs og hefur leikið með meistaraflokki Vals frá 2013 en hún hefur spilað 60 leiki í efstu deild, þar á meðal alla 18 leiki Valsliðsins á síðasta tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert