Jafnt gegn heimamönnum í Kína

Íslenska liðið fagnar í Kína í dag.
Íslenska liðið fagnar í Kína í dag. Ljósmynd/Knattspyrnusamband Íslands

Íslenska karla­landsliðið í knatt­spyrnu, skipað leik­mönn­um 21 árs og yngri, gerði 1:1-jafntefli á alþjóðlegu móti sem haldið er í Kína gegn gestgjöfunum sjálfum.

Heimamenn voru töluvert meira með boltann í upphafi leiks, uppskáru mark úr hornspyrnu eftir 18 mínútna leik og voru verðskuldað yfir í hálfleik. Fyr­ir­komu­lagið á mótinu er frjáls­legra en í móts­leikj­um og notaði Eyj­ólf­ur Sverris­son þjálfari sex skiptingar í hléinu.

Einn þeirra sem kom inn á var Felix Örn Friðriksson og var það hann sem jafnaði metin á 60. mínútu með skoti í stöng og inn. Bæði lið fengu færi til að kreista fram sigurmark, Sveinn Aron Guðjohnsen skaut í hliðarnetið úr góðu færi áður en Aron Birkir Stefánsson tók á honum stóra sínum í marki Íslands og varði vel. Að lokum urðu liðin að sættast á jafntefli.

Ísland tapaði gegn Mexíkó, 2:0, í fyrsta leiknum í fyrradag og mætir næst Taílandi á mánudaginn kemur. Mikil stemning var á vellinum í Chongqing en um 18 þúsund áhorfendur voru á pöllunum og þar á meðal Tólfan, stuðningssveit íslenska landsliðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert