Átta lið sem Ísland mætir ekki

Gareth Bale frá Wales og Thomas Delaney frá Danmörku geta ...
Gareth Bale frá Wales og Thomas Delaney frá Danmörku geta ekki lent í riðli með Íslandi í undankeppni EM 2020. AFP

Eins og staðan er núna, eftir leiki kvöldsins í Þjóðadeild UEFA, er ljóst með átta þjóðir sem Ísland getur ekki mætt í undankeppni EM karla í knattspyrnu 2020, en dregið verður til hennar í Dublin 2. desember.

Ísland verður í öðrum styrkleikaflokki ásamt níu öðrum þjóðum og nú er klárt hverjar átta þeirra verða, og geta því ekki lent í sama riðli og Ísland. 

Það eru Austurríki, Bosnía, Tékkland, Danmörk, Rússland, Svíþjóð, Úkraína og Wales.

Í þennan hóp bætist svo níunda og síðasta liðið annað kvöld en það verður annaðhvort Pólland eða Þýskaland.

Á sama hátt liggur fyrir með níu af þeim tíu þjóðum sem skipa fyrsta styrkleikaflokk, og ein þeirra mun verða með Íslandi í riðli.

Það eru England, Holland, Portúgal, Sviss, Belgía, Króatía, Frakkland, Ítalía og Spánn. Ein þessara þjóða verður semsagt í riðli Íslands, eða þá annaðhvort Pólland eða Þýskaland.

Síðan eru allar aðrar þjóðir Evrópu, úr þriðja, fjórða, fimmta og sjötta styrkleikaflokki, mögulegir andstæðingar í riðlakeppninni. Flokkarnir verða endanlega klárir eftir lokaleiki Þjóðadeildarinnar annað kvöld.

mbl.is