Einar Orri hættur með Keflvíkingum

Einar Orri Einarsson.
Einar Orri Einarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn Einar Orri Einarsson hefur ákveðið að yfirgefa Keflavík og reyna fyrir sér hjá öðru félagi en frá þessu er greint á vef Keflavíkur í dag.

Einar Orri hefur leikið allan feril sinn með Keflavík. Hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik með Suðurnesjaliðinu árið 2005 og hefur spilað alls 180 leiki með því og skorað 10 mörk.

„Stjórn knattspyrnudeildar Keflavíkur vill fyrir hönd félagsins þakka Einari frábært og óeigingjarnt starf fyrir félagið í gegnum tíðina og óskar honum velfarnaðar á nýjum slóðum. Einar verður alltaf stór hluti af Keflavíkur fjölskyldunni enda borinn og barnfæddur í bítlabænum,“ segir á vef Keflavíkur.

Einar Orri kom við sögu í 10 leikjum Keflvíkinga í Pepsi-deildinni í sumar en Keflavík féll úr deildinni. Liðið vann ekki leik og fékk aðeins 4 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert