Lára Kristín til Þórs/KA

Lára Kristín Pedersen í leik með Stjörnunni gegn FH.
Lára Kristín Pedersen í leik með Stjörnunni gegn FH. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnukonan Lára Kristín Pedersen sem leikið hefur með Stjörnunni undanfarin ár er gengin í raðir Akureyrarliðsins Þórs/KA en fram kemur á heimasíðu félagsins að hún hafi gert tveggja ára samning við félagið.

Lára Kristín er miðjumaður sem lék alla 18 leiki Stjörnunnar í Pepsi-deildinni á síðustu leiktíð og skoraði í þeim 2 mörk. Hún kom til Stjörnunnar frá Aftureldingu og lék með Garðabæjarliðinu í fimm ár og varð Íslandsmeistari með liðinu 2014 og 2016 og bikarmeistari 2014 og 2015. Þá á hún að baki 15 leiki með U-17 landsliðinu, 15 leiki með U-19, tvo með U-23 og einn með A-landsliðinu. 

Lára varð í öðru sætinu af öllum leikmönnum Pepsi-deildar kvenna í M-gjöf Morgunblaðsins á síðasta tímabili.

„Ég er mjög ánægður með að fá þennan gæðaleikmann til liðs við okkar sterka hóp. Lára hefur verið einn besti miðjumaður deildarinnar undanfarin ár og hæfileikar hennar og reynsla munu nýtast mjög vel í baráttu okkar um alla þá titla sem eru í boði. Við væntum mikils af henni og hlökkum til að fá hana norður og til liðs við okkur. Ég veit að hún mun smellpassa inn í liðið hjá okkur,“ segir Halldór Jón Sigurðsson þjálfari Þórs/KA á vef félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert