Þrír KA-menn á heimleið

Almarr Ormarsson hóf ferilinn með KA og kom áður norður …
Almarr Ormarsson hóf ferilinn með KA og kom áður norður tímabilin 2016 og 2017. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Knattspyrnulið KA er í þann veginn að fá verulega góðan liðsauka því þrír fyrrverandi leikmenn félagsins eru á leiðinni heim til Akureyrar og ganga líklega formlega til liðs við KA á morgun, samkvæmt áreiðanlegum heimildum mbl.is.

Þetta eru varnarmaðurinn Haukur Heiðar Hauksson, bakvörðurinn Andri Fannar Stefánsson og miðjumaðurinn Almarr Ormarsson.

Haukur snýr heim eftir sjö ára fjarveru en hann spilaði með KA í 1. deildinni frá 2008 til 2011. Hann lék með KR næstu þrjú ár, varð þar tvisvar bikarmeistari og einu sinni Íslandsmeistari, en hefur undanfarin fjögur ár leikið með AIK í sænsku úrvalsdeildinni og varð sænskur meistari með liðinu í ár. Haukur er 27 ára gamall og hefur spilað 7 A-landsleiki en hann lék 80 leiki með KA í 1. deildinni og skoraði 6 mörk, og 52 leiki með KR í úrvalsdeildinni, þar sem hann gerði 3 mörk. Með AIK spilaði Haukur 57 leiki í sænsku úrvalsdeildinni og skoraði 5 mörk.

Haukur Heiðar Hauksson í leik með KA gegn Selfossi en …
Haukur Heiðar Hauksson í leik með KA gegn Selfossi en hann spilaði með liðinu til 2011. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Andri Fannar er líka 27 ára gamall og hann lék með KA í 1. deildinni frá 2008 til 2010, samtals 58 leiki þar sem hann gerði 8 mörk. Andri hefur síðan leikið með Val í átta ár og orðið Íslandsmeistari með liðinu tvö síðustu árin, og bikarmeistari tvö ár þar á undan. Þá var hann í láni hjá Leikni R. í 1. deildinni hálft tímabilið 2014. Andri hefur leikið 98 leiki með Val í úrvalsdeildinni og skorað eitt mark.

Andri Fannar Stefánsson í leik með KA og það er …
Andri Fannar Stefánsson í leik með KA og það er aðstoðarþjálfari hans hjá Val undanfarin ár, Sigurbjörn Hreiðarsson, sem reynir að ná af honum boltanum. mbl.is/Golli

Almarr kemur aftur norður eftir eins árs fjarveru en hann lék með Fjölni í úrvalsdeildinni í ár þar sem hann spilaði 20 leiki og skoraði 2 mörk. Almarr lék með KA í 1. deildinni frá 2005 til 2008, spilaði 48 leiki og skoraði 6 mörk. Hann lék með Fram frá 2008 til 2013, spilaði þar 114 leiki í úrvalsdeildinni og skoraði 25 mörk og varð bikarmeistari með liðinu 2013. Almarr lék síðan með KR í tvö ár, spilaði 39 leiki í úrvalsdeildinni og skoraði 7 mörk en þar varð hann aftur bikarmeistari árið 2014. Hann fór norður til KA og vann 1. deildina með liðinu 2016, lék þá 21 leik og skoraði 3 mörk. Árið eftir lék Almarr með KA í úrvalsdeildinni, spilaði 20 leiki og skoraði 3 mörk.

KA var áður búið að fá til liðs við sig Guðjón Pétur Lýðsson úr Val og hefur því krækt í fjóra öfluga leikmenn frá síðasta tímabili. Óli Stefán Flóventsson tók við þjálfun Akureyrarliðsins í haust eftir að hafa stýrt Grindavík undanfarin ár en Srdjan Tufegdzic hætti hjá KA og tók við Grindavík í staðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert