Thomsen orðinn KR-ingur á ný

Tobias Thomsen í leik með KR-ingum í fyrra.
Tobias Thomsen í leik með KR-ingum í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

Danski sóknarmaðurinn Tobias Thomsen er genginn í raðir KR-inga á nýjan leik en frá þessu er greint á heimasíðu KR-inga.

Thomsen, sem er 27 ára gamall, lék með KR tímabilið 2017 og skoraði 9 mörk fyrir vesturbæjarliðið í Pepsi-deildinni í 22 leikjum og 13 mörk yfir það heila í 25 leikjum. Hann skipti yfir til Vals fyrir síðustu leiktíð og varð Íslandsmeistari með Hlíðarendaliðinu.

Hann skoraði aðeins mark í deildinni í 14 leikjum en Daninn þurfti að sitja mikið á varamannabekknum og sjá landa sinn, Patrick Pedersen, raða inn mörkum fyrir þá rauðklæddu.

Thomsen er fjórði leikmaðurinn sem KR-ingar fá til liðs við sig fyrir baráttuna á næstu leiktíð en áður höfðu þeir fengið Alex Frey Hilmarsson og Arnþór Inga Kristinsson frá Víkingi Reykjavík og Ægi Jarl Jónasson frá Fjölni.

KR-ingar höfnuðu í 4. sæti í Pepsi-deildinni á síðustu leiktíð og spila þar með í Evrópudeildinni 2019.

mbl.is