Las í blöðunum að sér hefði verið sparkað

Atli Eðvaldsson þjálfaði íslenska landsliðið í kringum aldamótin og lék …
Atli Eðvaldsson þjálfaði íslenska landsliðið í kringum aldamótin og lék sjálfur 70 landsleiki. mbl.is/Golli

„Ég hef aldrei fengið skýringu á því,“ segir Atli Eðvaldsson um það hvernig ferli hans með íslenska landsliðinu í knattspyrnu lauk snögglega þegar hann hafði spilað 70 A-landsleiki.

Atli ræddi um landsliðsferilinn og margt fleira í athyglisverðu viðtali í þættinum Íþróttafólkið okkar á RÚV í kvöld. Ásgeir Elíasson hafði tekið við landsliðinu og ákvað að nýta ekki krafta Atla, sem lék sinn síðasta landsleik árið 1991:

„Það hefur verið svolítil þögn yfir þessu. Ég held að það hafi verið daginn fyrir leikmannahátíðina þetta ár. Þá kemur fyrirsögn í blaði, bara opna; „landsliðsfyrirliðanum sparkað“. Maður hugsaði bara; hvers vegna? Ég hef aldrei fengið skýringu á því. Ég las bara um þetta í blöðunum. Ef að þetta gerist í framtíðinni, hjá einstaklingum sem eru búnir að þjóna sambandinu vel, þá má aldrei láta þetta gerast. Ég held að það sé einsdæmi í heiminum að þetta gerist,“ segir Atli.

Í viðtalinu kemur fram að honum hafi boðist að spila fyrir eistneska landsliðið, en Eðvald Hinriksson pabbi Atla var frá Eistlandi. Raunar benti Atli á það að eistneskt félag, sem stofnað var árið 1993, væri nefnt í höfuðið á sér en það er félagið Rapla Atli.

Stóru mistökin að taka við landsliðinu?

Eftir að hafa gert KR að Íslands- og bikarmeistara árið 1999 tók Atli við íslenska landsliðinu, en hann segir landsliðsþjálfarastarfið hafa gert það að verkum að þjálfaraferli hans hafi í raun verið lokið:

„Þá gerði ég kannski stóru mistökin mín, að fara yfir í landsliðið. Það var erfitt. Það voru svona „turbulencar“ í kringum landsliðið, og sambandið var ekki nógu vel í stakk búið til að taka á þeim. Mér fannst ég vera rosalega einn. Ég tapa fyrsta leiknum á móti Dönum, og þá varð allt brjálað. Samt endum við með einhver 12 stig. Ég var bara með Guðmund Hreiðarsson sem aðstoðarþjálfara. Við vorum bara tveir. Núna er teymi sem fylgir þér allan liðlangan daginn. Við vorum bara tveir og gerðum þetta eins og þegar maður var að þjálfa KR. Það var farið yfir skipulag og færslur, en það þótti leiðinlegt og margir blaðamenn töluðu um að þetta væru leiðinlegar æfingar. Svo er svo gaman að þegar Ísland komst á EM þá sagði Lars við Aron; „Segðu hvernig ykkur fundust æfingarnar.“ Þá sagði Aron; „okkur fannst þær alveg ógeðslega leiðinlegar. Alltaf þetta sama. Alltaf þetta sama.“ En þetta er það sem skilar árangri,“ sagði Atli.

„Þetta var það erfiður tími að ég var bara búinn sem þjálfari eftir landsliðið. Sama hvar maður kom þá var maður ásakaður um hitt og þetta. Maður gat ekki farið út að borða, þá var fólk að kommentera. Það var fullt af góðum kommentum líka en það var fólk með æsing. Þetta verður svona snjóbolti sem fer af stað, og þú getur ekki stoppað þetta,“ bætti hann við.

Atli þjálfaði síðast lið Kristianstad í Svíþjóð en hann glímir við veikindi og hefur af þeim sökum ekki viljað taka að sér nýtt starf:

„Maður er alltaf að berjast. Það er bara barátta sem kemur í ljós hvernig fer. Nú er ég búinn að vera tvö ár í þessu. Mér voru gefnar einhverjar vikur fyrir tveimur árum síðan. Sem dæmi þá er ég búinn að fá fjögur þjálfaratilboð núna erlendis, tveir klúbbar í Færeyjum og tveir í Svíþjóð, en ég get ekki tekið við þeim því ég veit ekki hvernig ástandið mitt verður,“ segir Atli.

Viðtalið við hann má sjá í heild sinni á vef RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert