Víkingar leika á gervigrasi 2019

Víkingsvöllurinn var ekki í góðu standi í upphafi síðasta Íslandsmóts.
Víkingsvöllurinn var ekki í góðu standi í upphafi síðasta Íslandsmóts. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnufélagið Víkingur í Reykjavík hefur staðfest að félagið muni leika á gervigrasi í Pepsi-deildum karla og kvenna á næsta keppnistímabili, 2019, en horfur voru á að framkvæmdir við Víkingsvöllinn myndu frestast um eitt ár.

Karlalið Víkings mun væntanlega leika fyrstu leikina á tímabilinu á Eimskipsvelli Þróttar í Laugardal og kvennalið HK/Víkings mun hefja Íslandsmótið 2019 í Kórnum í Kópavogi.

Í tilkynningu á vef Víkings segir:

Í vor gerðu Reykjavíkurborg og Knattspyrnufélagið Víkingur með sér samkomulag að gervigras skyldi lagt á aðalvöllinn í Víkinni. Borgarráð Reykjavíkur samþykkti í dag að bjóða framkvæmdina út á næstu dögum.Það er því endanlega ljóst að meistaraflokkar félagsins munu spila á gervigrasi í Pepsi deildum karla og kvenna næsta sumar. Stefnt er að því að völlurinn verði tilbúinn í byrjun júní. Karlalið Víkings mun óska eftir því að spila fyrstu heimaleiki sína næsta vor á gervigrasvelli Þróttar í Laugardal en kvennaliðið mun leika í Kórnum.

Samþykkt Borgarráðs eyðir allri óvissu sem hefur ríkt um málið nú í haust og eru aðilar ánægðir með þessa lendingu.

mbl.is