ÍA selur tvo unga og efnilega til Norrköping

Oliver Stefánsson og Ísak Bergmann Jóhannesson.
Oliver Stefánsson og Ísak Bergmann Jóhannesson. Ljósmynd/ÍA

ÍA hefur gengið frá sölu á Ísaki Bergmann Jóhannessyni og Oliver Stefánssyni til sænska úrvalsdeildarliðsins Norrköping en frá þessu er greint á heimasíðu ÍA í dag.

Á vef Skagamanna segir;

Ísak Bergmann er 15 ára og hefur spilað einn leik með ÍA í Inkasso-deildinni. Hann á að baki sjö leiki með U17 þar sem hann hefur gert sjö mörk og sjö leiki með U16 þar sem hann hefur skorað tvö mörk.

Oliver er 16 ára og hefur spilað einn leik með ÍA í Inkasso-deildinni. Hann á að baki einn leik með U18, sjö leiki með U17 þar sem hann hefur skorað eitt mark og þrjá leiki með U16.

Þeir voru báðir lykilmenn í 2. flokk karla sem urðu Íslandsmeistarar í sumar í fyrsta sinn í 13 ár.

Þess má svo geta að Ísak Bergmann er sonur Jóhannesar Karls Guðjónssonar þjálfara meistaraflokks karla hjá ÍA og fyrrverandi atvinnumanns. Oliver er sonur Stefáns Þórs Þórðarsonar fyrrverandi leikmanns ÍA og atvinnumanns hjá Norrköping.

Sjá heimasíðu Norrköping

Góð tengsl hafa verið á milli ÍA og Norrköping og til að mynda gekk Arnór Sigurðsson í raðir sænska liðsins frá ÍA í fyrra. Hann var svo seldur til rússneska liðsins CSKA Moskva í sumar þar sem hann hefur gert það gott í deildinni og í Meistaradeildinni. Hann varð á dögunum yngsti Íslendingurinn til að skora í Meistaradeildinni þegar hann skoraði í tapleik á móti Roma. Þá léku Skagamennirnir Garðar Gunnlaugsson og Stefán Þórðarson með Norrköping á árum áður.

Landsliðsmaðurinn Guðmundur Þórarinsson leikur með Norrköping sem hafnaði í öðru sæti í sænsku úrvalsdeildinni á eftir AIK.

mbl.is