Milos fær Gísla til sín að láni

Gísli Eyjólfsson er á förum í atvinnumennsku.
Gísli Eyjólfsson er á förum í atvinnumennsku. mbl.is/Eggert

Gísli Eyjólfsson, miðjumaður Breiðabliks, mun leika í sænsku B-deildinni í knattspyrnu á næstu leiktíð og endurnýja kynnin við sinn fyrrverandi þjálfara.

Gísli hefur verið lánaður til Mjällby sem verður nýliði í B-deildinni á næstu leiktíð, eftir að hafa unnið suðurriðil C-deildarinnar af miklu öryggi. Frá þessu er greint á heimasíðu Mjällby.

Gísli, sem er 24 ára gamall, átti mjög gott tímabil með Breiðabliki í sumar og varð til að mynda efstur í M-einkunnagjöf Morgunblaðsins. Hann skoraði sjö mörk í 22 leikjum í Pepsi-deildinni í sumar. Gísli hefur leikið með Breiðabliki stærstan hluta síns ferils en verið lánaður þaðan til Augnabliks, Hauka og Víkings í Ólafsvík.

Milos Milojevic, fyrrverandi þjálfari Víkings R. og Breiðabliks, er þjálfari Mjällby og hefur stýrt liðinu í eitt ár. Eins og fyrr segir flaug liðið upp úr C-deild undir hans stjórn og eftir það skrifaði hann undir nýjan samning við félagið, til næstu tveggja ára. Milos þjálfaði Gísla hjá Breiðabliki sumarið 2017.

mbl.is