Heimir kynntur í dag?

Heimir Hallgrímsson í áhorfendastúkunni.
Heimir Hallgrímsson í áhorfendastúkunni.

Heimir Hallgrímsson verður samkvæmt fréttum í katörskum miðlum kynntur sem nýr þjálfari Al Arabi á næstu dögum, hugsanlega þegar á blaðamannafundi í dag.

Það fullyrðir til að mynda eitt útbreiddasta dagblaðið í Katar, Al Raya. Heimir er í Katar og sá á laugardag leik Al Arabi við Umm Salal í katörsku stjörnudeildinni, efstu deild landsins, sem Al Arabi vann af öryggi, 3:0.

Sjá mátti myndir af Heimi fylgjast með leiknum úr stúkunni, með penna og blað við hönd, en forráðamenn Al Arabi munu hafa viljað fá Heimi sem fyrst út til þess að skoða leikmenn liðsins og finna út hvernig best væri að haga málum í leikmannakaupum, en opnað er fyrir félagaskipti 1. janúar.

Félög í deildinni mega hafa fjóra erlenda atvinnumenn hvert í sínum röðum, og þar af verður þá einn að vera frá Asíuþjóð. Al Arabi er í dag með Brasilíumennina Diego Jardel og Mailson í sínum röðum, Kólumbíumanninn Franco Arizala og íraska landsliðsmanninn Ahmad Ibrahim Khalaf. Fjöldi þekktra leikmanna leikur með öðrum liðum í deildinni og nægir þar að nefna Spánverjana Xavi og Gabi, Hollendingana Nigel de Jong og Wesley Sneijder, og Kamerúnann Samuel Eto'o.

Hlé verður gert á keppni í katörsku deildinni eftir 16. umferðina sem lýkur á föstudag. Al Arabi er í 6. sæti af 12 liðum með 21 stig, fimmtán stigum á eftir toppliði Al Duhail. Hatem Almoadab er núverandi þjálfari liðsins en var ráðinn tímabundið þegar Króatinn Luka Bonacic var rekinn í október. Taki Heimir við liði Al Arabi, eins og allt virðist nú benda til, fetar hann jafnframt í fótspor þjálfara og áður þekktra knattspyrnumanna á borð við Ítalann Gianfranco Zola, sem stýrði liðinu 2015-2016, og Rúmenann Dan Petrescu sem stýrði því í hálft ár árið 2014.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert