Heimir kynntur með húh-myndskeiði

Heimir Hallgrímsson er að taka við Al Arabi í Katar …
Heimir Hallgrímsson er að taka við Al Arabi í Katar eftir frábæran árangur sem landsliðsþjálfari Íslands. mbl.is/Eggert

Katarska knattspyrnufélagið Al Arabi kynnti nú í morgun Heimi Hallgrímsson sem nýjan þjálfara liðsins með flottu myndskeiði á Twitter-síðu sinni. 

Heimir verður formlega kynntur á fjölmiðlafundi í hádeginu á morgun, að því er fram kemur í miðlum í Katar. Þar ætti þá að koma fram til hve langs tíma samningurinn er. RÚV greinir frá því að samningurinn gildi í tvö og hálft ár, og að starfslið Heimis verði að mestu skipað Spánverjum en að Bjarki Már Ólafsson, 24 ára gamall Seltirningur sem meðal ananrs hefur verið yfirþjálfari yngri flokka hjá Gróttu, muni aðstoða Heimi.

Heimir kom til Katar fyrir helgi og sá 3:0-sigur Al Arabi gegn Umm Salal. Liðið er í 6. sæti efstu deildar í Katar, hinni svokölluðu stjörnudeild.

Al Arabi verður fyrsta liðið sem Heimir stýrir utan Íslands en hann hefur á sínum ferli þjálfað kvennalið Hattar, kvenna- og karlalið ÍBV, og íslenska karlalandsliðið. Undir stjórn Heimis og Lars Lagerbäck komst Ísland í fyrsta sinn í lokakeppni stórmóts, á EM 2016, og Heimir stýrði svo íslenska liðinu á sitt fyrsta heimsmeistaramót. Eftir HM í sumar ákvað hann að hætta sem landsliðsþjálfari, og kvaðst þá í samtali við mbl.is vilja fara til enskumælandi lands, en sagði jafnframt að fótboltaheimurinn væri risastór og miklar framfarir í öðrum löndum en Íslendingar væru vanir að horfa til.

Hatem Almoadab hefur þjálfað Al Arabi undanfarið en var ráðinn tímabundið þegar Króatinn Luka Bonacic var rekinn í október. Heimir fetar jafnframt í fótspor þjálfara og áður þekktra knattspyrnumanna á borð við Ítalann Gianfranco Zola, sem stýrði liðinu 2015-2016, og Rúmenann Dan Petrescu sem stýrði því í hálft ár árið 2014.

Þekktir leikmenn spila í katörsku úrvalsdeildinni, þó flestir séu þeir komnir af léttasta skeiði. Félög í deildinni mega hafa fjóra erlenda atvinnumenn hvert í sínum röðum, og þar af verður þá einn að vera frá Asíuþjóð. Al Arabi er í dag með Brasilíumennina Diego Jardel og Mailson í sínum röðum, Kólumbíumanninn Franco Arizala og íraska landsliðsmanninn Ahmad Ibrahim Khalaf. Af þekktustu leikmönnum deildarinnar nægir að nefna Spánverjana Xavi og Gabi, Hollendingana Nigel de Jong og Wesley Sneijder, og Kamerúnann Samuel Eto'o.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert