Heimir talar ekki í kringum peningana í Katar

Heimir Hallgrímsson í áhorfendastúkunni í Katar.
Heimir Hallgrímsson í áhorfendastúkunni í Katar.

„Auðvitað skiptir máli hvað þú færð borgað fyrir starf, sérstaklega þegar þú ert að binda þig hérna í þrjú ár,“ segir Heimir Hallgrímsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari í knattspyrnu, sem í dag var kynntur hjá Al Arabi í Katar.

Heimir ræddi við RÚV í dag, en hann segir að þótt peningarnir séu til staðar þá hafi þeir ekki gert útslagið fyrir hann að fara til Katar.

„Það réð ekki úrslitum, það er aðstaðan og tækifærið til að bæta okkur og þroskast. Það hreif mig og fjölskylduna mest,“ segir Heimir, sem kom til Kat­ar fyr­ir helgi og sá 3:0-sig­ur Al Ar­abi gegn Umm Salal. Liðið er í 6. sæti efstu deild­ar í Kat­ar, hinni svo­kölluðu stjörnu­deild.

Al Ar­abi verður fyrsta liðið sem Heim­ir stýr­ir utan Íslands en hann hef­ur á sín­um ferli þjálfað kvennalið Hatt­ar, kvenna- og karlalið ÍBV og ís­lenska karla­landsliðið. Eft­ir HM í sum­ar ákvað hann að hætta sem landsliðsþjálf­ari, og kvaðst þá í sam­tali við mbl.is vilja fara til ensku­mæl­andi lands, en sagði jafn­framt að fót­bolta­heim­ur­inn væri risa­stór og mikl­ar fram­far­ir í öðrum lönd­um en Íslend­ing­ar væru van­ir að horfa til.

Heimir segir að það sé allt til alls í Katar og varla sé hægt að biðja um betri aðstöðu.

„Þeir sem vita eitthvað um fótbolta vita að hér á þessu svæði, í Katar, er allt að gerast. HM 2022 er haldið hér og það er ekkert til sparað að hafa allt til alls. Þetta er allt tífalt stærra og meira en maður getur lýst. Fyrir metnaðarfulla þjálfara sem vilja læra meira þá er þetta frábær staður til að vera á,“ segir Heimir.

Hann viðurkennir jafnframt í viðtalinu að hann hafi verið svekktur að missa af starfi þjálfara hjá Vancouver Whitecaps í Kanada. Þá hrósar hann einnig Bjarka Má Ólafssyni, ungum knattspyrnuþjálfara sem verður aðstoðarmaður Heimis. Viðtalið má sjá og lesa HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert