Helgi þekkir vel til í Liechtenstein

Helgi Kolviðsson var aðstoðarlandsliðsþjálfari Íslands í undan- og lokakeppni HM ...
Helgi Kolviðsson var aðstoðarlandsliðsþjálfari Íslands í undan- og lokakeppni HM 2018. mbl.is/Eggert

„Ég hef hitt þá [forráðamenn knattspyrnusambands Liechtenstein] tvisvar og rætt við þá, og þetta er bara í vinnslu. Þetta gæti skýrst í vikunni,“ segir Helgi Kolviðsson sem gæti verið að taka við landsliði Liechtenstein í knattspyrnu.

Helgi var síðast aðstoðarlandsliðsþjálfari Íslands frá 2016 og fram yfir HM í sumar. Hann hefur áður þjálfað félagslið í Austurríki og Þýskalandi og búið í þessum löndum frá því að hann fór sem leikmaður í atvinnumennsku árið 1995.

Það var Fótbolti.net sem greindi fyrst frá því að Helgi kæmi til greina sem næsti landsliðsþjálfari Liechtenstein en liðið er án þjálfara eftir að Austurríkismaðurinn Rene Pauritsch hætti með liðið. Helgi kveðst hafa fundað með forráðamönnum Liechtenstein fyrir tíu dögum, og aftur síðan þá, og reiknar eins og fyrr segir með því að niðurstaða fáist í málið á næstu dögum. Hann þekkir vel til í smáríkinu Liechtenstein, sem liggur á milli Sviss og Austurríkis, og landsliðs Liechtenstein sem er í 181. sæti heimslistans.

„Ég bjó við hliðina á Liechtenstein í sex ár og tók nú tvo leikmenn þaðan í mín lið á sínum tíma, bæði sem þjálfari Laustenau og Ried í Austurríki. Maður þekkir allt þetta svæði. Mín lið spiluðu oft æfingaleiki við Vaduz, besta félagsliðið þarna, svo maður hefur verið þokkalega oft þarna og þekkir alla aðstöðu. Það er flottur völlur þarna, og stutt í öll lið sem eru í kring. Það er plús við að vera í svona litlu landi eins og Liechtenstein, að allir strákarnir í yngri landsliðunum eru þarna saman í sama skóla og svona. Það er mikill vilji til þess að byggja upp betri leikmenn til framtíðar, vera með góða akademíu, og það er hugsað fram í tímann,“ segir Helgi við mbl.is.

Helgi vill ekki fara út í neinar umræður um það hver markmið hans yrðu sem þjálfari Liechtenstein en fari svo að hann taki við liðinu þá er næsta stóra verkefni þess þátttaka í undankeppni EM á næsta ári, þar sem liðið mætir Grikklandi og Ítalíu í mars, og er einnig í riðli með Bosníu, Finnlandi og Armeníu.

„Við höfum bara verið að ræða þeirra hugmyndir og hvernig ég gæti komið inn í þetta. Þeir ætla að hittast í dag og fara yfir málin. Ég veit ekkert hverja aðra þeir hafa rætt við og ekkert verið að spyrja út í það. Við höfum átt góð samtöl og þetta gæti skýrst núna í vikunni,“ segir Helgi. En hafa fleiri kostir komið til greina hjá honum sjálfum?

„Það hafa verið einhver félagslið að hafa samband, en ekkert sem ég hef verið spenntur fyrir,“ segir Helgi, sem er 47 ára gamall.

mbl.is