Guðrún í atvinnumennskuna

Guðrún Arnardóttir í leik með Breiðabliki gegn Stjörnunni.
Guðrún Arnardóttir í leik með Breiðabliki gegn Stjörnunni. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Guðrún Arnardóttir, miðvörður Íslands- og bikarmeistara Breiðabliks í knattspyrnu, hefur samið við Djurgården sem leikur í efstu deild í Svíþjóð. 

Frá þessu er greint á netmiðlinum 433.is. Guðrún verður þá samherji landsliðsmarkvarðarins Guðbjargar Gunnarsdóttur sem varið hefur mark liðsins um árabil, síðast frá 2016, og Ingibjargar Sigurðardóttur sem Guðrún lék með hjá Breiðabliki. Í haust framlengdi Guðbjörg samning sinn við félagið. 

Um talsverða blóðtöku er að ræða fyrir Íslandsmeistarana en Guðrún var í mikilvægu hlutverki í hjarta varnarinnar síðasta sumar. 

Guðrún er 23 ára gömul og hefur leikið 98 leiki í efstu deild á Íslandi en hún er uppalin á Selfossi. Auk þess lék hún um tíma í háskólaboltanum í Bandaríkjunum. 

Nokkur hefð er fyrir íslenskum leikmönnum hjá Djurgården sem staðsett er í Stokkhólmi. Guðrún Gunnarsdóttir, Dóra María Lárusdóttir, Katrín Jónsdóttir og Hallbera Guðný Gísladóttir hafa einnig leikið með liðinu. Þá stýrði Sigurður Jónsson karlaliði félagsins og þar léku Kári Árnason og Sölvi Geir Ottesen. 

mbl.is