Íslendingar með Ítölum í riðli

Eyjólfur Sverrisson, þjálfari U21 árs landsliðsins.
Eyjólfur Sverrisson, þjálfari U21 árs landsliðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dregið var í morgun til næstu undankeppni hjá U21 árs liði karla í knattspyrnu. Íslendingar eru meðal annars með Ítölum og Svíum í A-riðli undankeppninnar. 

Ísland var í þriðja styrkleikaflokki og fékk Ítalíu úr þeim efsta og Svía úr næstefsta styrkleikaflokki. Ísland dróst einnig með í riðil með Írum sem voru í fjórða styrkleikaflokki. Úr þeim fimmta eru Armenar og Lúxemborg úr neðsta styrkleikaflokki. 

Um er að ræða undankeppni fyrir EM 2021 og liðin sem vinna riðlana níu í undankeppninni komast beint í lokakeppnina. 

Annað sætið í riðlinum getur gefið keppnisrétt í umspili um sæti í lokakeppninni. 

Ísland hefur einu sinni náð alla leið í lokakeppnina og fór hún þá fram í Danmörku sumarið 2011. Ísland hafnaði þá í öðru sæti í sínum riðli en hafði betur í umspili gegn Skotum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert