Fyrstur til að skora á Santiago Bernabéu

Arnór Sigurðsson fagnar með félögum sínum eftir að hafa skorað ...
Arnór Sigurðsson fagnar með félögum sínum eftir að hafa skorað gegn Real Madrid í gærkvöld. AFP

Arnór Sigurðsson skráði sig í sögubækurnar í gærkvöld með því að verða fyrsti íslenski knattspyrnumaðurinn til þess að skora á heimavelli spænska stórveldisins Real Madrid, Santiago Bernabéu.

Arnór skoraði laglegt mark í 3:0-sigri CSKA Moskvu í Madrid í gær, í Meistaradeild Evrópu. Þar með afrekaði hann nokkuð sem aðrir íslenskir knattspyrnumenn hafa ekki afrekað.

Þrír af helstu markaskorurum Íslandssögunnar koma upp í hugann þegar því er velt upp hvort Íslendingur hafi skorað á Santiago Bernabéu. Eiður Smári Guðjohnsen, Alfreð Finnbogason og Pétur Pétursson léku allir með spænskum félagsliðum en enginn þeirra náði hins vegar að skora á þessum sögufræga velli.

Íslensk félagslið hafa tvisvar sinnum mætt Real Madrid í Evrópukeppni. Keflavík fór til Madrid árið 1972 og Fram tveimur árum síðar, en hvorugu liðanna tókst að skora.

Nokkrir Íslendingar hafa líka mætt Real Madrid með erlendum félagsliðum en ekki tekist að skora. Í þeim hópi eru Kolbeinn Sigþórsson, Arnór Guðjohnsen, Rúrik Gíslason, Ragnar Sigurðsson, Kári Árnason, Gunnar Gíslason og markvörðurinn Árni Gautur Arason.

mbl.is