Emil sleit hásin

Pétur Viðarsson og Emil Pálsson
Pétur Viðarsson og Emil Pálsson mbl.is/Kristinn Magnússon

Ísfirðingurinn Emil Pálsson leikur ekki knattspyrnu á næstunni eftir að hafa slitið hásin í Íslandsheimsókn en Emil er leikmaður Sandefjord í Noregi.

Fótbolti.net greinir frá þessu og þar kemur fram að Emil hafi verið á æfingu með sínu gamla liði FH þegar hann meiddist. Í viðtali við Magnús Má Einarsson segir Emil að um mikið áfall sé að ræða fyrir sig. 

„Þetta er mikið áfall og mun taka langan tíma að koma til baka en þetta verður góður lærdómur og ég er 100% viss um að ég verði sterkari þegar það gerist,“ er meðal annars haft eftir Emil hjá Fótbolta.net.

Emil hafði glímt við álagsmeiðsli í hásin á árinu en ekki var búist við því að hún myndi gefa sig alfarið og slitna eins og raunin varð. 

mbl.is