Margrét Lára gaf bestu meðmæli

Vinstri fótur Önnu Rakelar Pétursdóttur mun eflaust reynast Linköping vel ...
Vinstri fótur Önnu Rakelar Pétursdóttur mun eflaust reynast Linköping vel á næstu tveimur árum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Anna Rakel Pétursdóttir hafnaði tilboði þýska knattspyrnufélagsins Leverkusen áður en hún samdi við Linköping í Svíþjóð. Hún ráðfærði sig við markadrottningu íslenska landsliðsins, Margréti Láru Viðarsdóttur, áður en samningurinn við Linköping var undirritaður.

„Þetta gerðist allt voðalega hratt og ég skrifaði undir samning fyrir 2-3 dögum. Það hefur alltaf verið draumurinn að fara út og ég held að þetta sé rétti tímapunkturinn til þess. Þetta er hörkulið og ég er mjög spennt fyrir því að spila og æfa með þessum leikmönnum,“ segir Anna Rakel sem samdi til tveggja ára við Linköping.

Anna Rakel, sem er tvítug, hefur allan sinn feril leikið með Þór/KA og varð Íslandsmeistari með liðinu í fyrra. Í Linköping hafa konur einnig verið að fagna titlum en liðið varð Svíþjóðarmeistari árin 2016 og 2017, og lék því í Meistaradeild Evrópu í ár en féll út í 16-liða úrslitum gegn PSG. Frá árinu 2006 hefur Linköping unnið þrjá Svíþjóðarmeistaratitla og fimm bikarmeistaratitla.

Anna Rakel kveðst hafa valið Linköping meðal annars með hlutverk sitt í íslenska landsliðinu í huga. Hún lék fyrstu fjóra A-landsleiki sína á þessu ári.

„Ég var aðeins að líta til Þýskalands líka. Við Sandra María [Jessen] fórum til Leverkusen fyrir mánuði síðan og æfðum með liðinu í viku, og þar var mér einnig sýndur áhugi. Ég taldi hins vegar að það myndi henta mér betur að fara til Linköping. Ég taldi að ég fengi að spila meira þar og þá í minni stöðu sem vinstri bakvörður. Ég held að Leverkusen hafi meira hugsað mig sem miðjumann. Upp á landsliðið að gera þá er vinstri bakvarðarstaðan hentugri fyrir mig. Hjá Linköping get ég verið vinstri bakvörður í fjögurra manna vörn,“ segir Anna Rakel.

Þessi örvfætta knattspyrnukona heldur út til Svíþjóðar í byrjun janúar og flyst til Linköping, sem er vinaleg 160 þúsund manna háskólaborg í Austur-Gautlandi, í 200 kílómetra fjarlægð frá Stokkhólmi. Fyrrnefnd Margrét Lára Viðarsdóttir er eina íslenska knattspyrnukonan sem leikið hefur með Linköping en Margrét lék með liðinu árið 2009.

„Við pabbi ræddum aðeins við hana. Hún mælti mjög mikið með þessum stað. Borgin er góð og allt í kringum liðið er í toppstandi, þannig að henni leist bara mjög vel á þetta,“ segir Anna Rakel.

mbl.is