Nýtt upphaf Flóka í Start

Kristján Flóki fagnar marki fyrir Start.
Kristján Flóki fagnar marki fyrir Start. Ljósmynd/ikstart.no

Knattspyrnumaðurinn Kristján Flóki Finnbogason mun að óbreyttu leika með Start í næstefstu deild Noregs á næsta ári eftir að hafa leikið með Brommapojkarna í sænsku úrvalsdeildinni seinni hluta síðustu leiktíðar.

Flóki, eins og hann er jafnan kallaður, var seldur frá FH til Start á miðju sumri 2017 og átti sinn þátt í að koma liðinu upp í norsku úrvalsdeildina. Hann lék með Start framan af leiktíðinni í ár en var svo lánaður til Brommapojkarna. Svo fór að bæði lið féllu um deild nú í haust, með miklum naumindum. Start endaði tveimur stigum frá öruggu sæti og Flóki lék báða umspilsleiki Brommapojkarna gegn Eskilstuna, sem Brommapojkarna töpuðu á útivallarmarki.

„Ég fer aftur til Noregs 14. janúar. Það er ekkert nýtt í stöðunni hjá mér,“ segir Flóki við mbl.is. en samningur hans við Start gildir til ársins 2020. Hann segir fall liðsins ekki breyta sinni stöðu: „Nei, í rauninni ekki. En maður bíður bara og sér hvað gerist í janúar.“

Flóki á að baki fjóra A-landsleiki og hefur skorað í þeim eitt mark, en hann var til að mynda með aðallandsliðshópnum í Katar fyrir rúmu ári síðan þegar liðið hóf undirbúning sinn fyrir HM í Rússlandi. Flóki, sem þrívegis hefur orðið Íslandsmeistari með FH, skoraði átta mörk í 14 deildarleikjum fyrir FH í fyrra og fylgdi því eftir með fjórum mörkum í 10 leikjum í norsku 1. deildinni. Í ár skoraði hann tvö mörk í 12 leikjum fyrir Brommapojkarna eftir að hafa skorað tvö mörk í 13 leikjum fyrir Start. Þrátt fyrir fallið kveðst hann sáttur við sinn tíma í Svíþjóð:

„Ég var bara mjög ánægður hjá Brommapojkarna, sérstaklega framan af. Þegar ég kom var Luis Pimenta þjálfari, og hann var mjög góður og hjálpaði mér mikið. En svo var hann látinn fara og þá breyttist umhverfið aðeins, og það var ekki sama stemning í kringum liðið,“ segir þessi 23 ára gamli framherji.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert