Annar Bliki til Midtjylland

Nikola Djuric á æfingasvæði Midtjylland.
Nikola Djuric á æfingasvæði Midtjylland. Ljósmynd/fcm.dk

Danska knattspyrnufélagið Midtjylland, sem er ríkjandi meistari í Danmörku, hefur fengið til sín annan leikmanninn frá Breiðabliki á þessu ári.

Það er 17 ára sóknar- eða kantmaður, Nikola Djuric, sem á að baki fjóra leiki með U17 ára landsliði Íslands, sem hefur samið við Midtjylland en félagið greinir frá þessu á heimasíðu sinni.

Í sumar fékk Midtjylland til sín 18 ára markvörð frá Breiðabliki, Elías Rafn Ólafsson, og þriðji Íslendingurinn sem er á mála hjá félaginu er Mikael Anderson, leikmaður 21-árs landsliðs Íslands. Hann er hinsvegar í láni hjá Excelsior í hollensku úrvalsdeildinni.

Flemming Broe, yfirmaður akademíu Midtjylland, segir um Nikola Djuric: „Hann er fjölhæfur sóknarmaður sem kann best við sig á vinstri kantinum en getur líka leikið sem fremsti maður. Hann er með góða tækni, með réttan hugsunarhátt gagnvart æfingum og keppni, og á Íslandi hefur hann bæði skorað mikið af mörkum og lagt þau upp," segir Broe á vef Midtjylland.

Þess má geta að yngri bróðir Nikola, Danijel Dejan Djuric, hefur þegar leikið 14 leiki fyrir yngri landslið Íslands en hann er aðeins 15 ára gamall.

mbl.is