Björn Daníel kominn aftur í FH

Björn Daníel Sverrisson í leik með FH-ingum.
Björn Daníel Sverrisson í leik með FH-ingum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Knattspyrnumaðurinn Björn Daníel Sverrisson er genginn í raðir FH á nýjan leik og skrifaði nú í hádeginu undir fjögurra ára samning við Hafnarfjarðarliðið.

Björn Daníel, sem er 28 ára gamall, er uppalinn í FH. Hann lék sína fyrstu meistaraflokksleiki með liðinu árið 2008 og lék sex leiktíðir með því áður en hann hélt út í atvinnumennsku. Hann vann þrjá Íslandsmeistaratitla með FH-ingum og var valinn leikmaður ársins af leikmönnum árið 2013. Björn hefur spilað 108 leiki með FH í efstu deild og hefur skorað í þeim 32 mörk og þá á hann að baki 8 A-landsleiki.

Björn Daníel yfirgaf FH eftir tímabilið 2013 og samdi við norska liðið Viking. Hann var í herbúðum Viking frá 2014-16 en fór þaðan til danska liðsins AGF. Í fyrra var hann í láni hjá danska B-deildarliðinu Vejle en sneri aftur til AGF á þessari leiktíð.

Hann er þriðji leikmaðurinn sem FH fær til liðs við sig eftir að tímabilinu lauk í haust. Guðmann Þórisson kom frá KA og Brynjar Ásgeir Guðmundsson kom frá Grindavík. Báðir hafa þeir leikið með FH en Brynjar er uppalinn FH-ingur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert