Hef ennþá mikla trú á hæfileikum mínum

Björn Daníel Sverrisson handsalar samninginn við Jón Rúnar Halldórsson formann …
Björn Daníel Sverrisson handsalar samninginn við Jón Rúnar Halldórsson formann knattspyrnudeildar FH. mbl.is/Guðmundur Hilmarsson

„Ég myndi segja að ég sé betri leikmaður nú en ég var þegar ég lék síðast með FH,“ sagði Björn Daníel Sverrisson, sem í dag gekk í raðir síns gamla félags og gerði fjögurra ára samning.

„Ég er fimm kílóum léttari en ég var þegar ég lék síðast í FH treyjunni og ég er búinn að spila á stærra sviði en hér heima síðustu árin þótt ég hafi ekki spilað mikið síðasta árið. Fyrstu þrjú og hálft árið í atvinnumennskunni spilaði ég nánast alla leiki sem ég gat og ég tel að ég sé búinn að bæta mig töluvert sem knattspyrnumaður. Ég er ekki að koma heim af því að mér finnist að ég sé búinn. Ég ræddi við minn umboðsmann og af því sem var í boði þá fannst mér mest spennandi að koma til FH,“ sagði Björn Daníel við mbl.is eftir undirskriftina í Kaplakrika í dag.

Björn Daníel átti góðu gengi að fagna með FH áður en hann hélt út í atvinnumennsku. Hann varð þrisvar sinnum Íslandsmeistari með liðinu og var útnefndur besti leikmaður deildarinnar af leikmönnum árið 2013 en eftir það tímabil samdi hann við norska liðið Viking.

Fékk samningstilboð frá Val

„Ég er koma inn í umhverfi sem ég þekki vel. Ég er á þeim aldri að fyrir mér ætti ég að koma inn í deildina og vera einn besti maður hennar. Ég hef ennþá mikla trú á hæfileikum mínum þótt ég hafi ekki spilað mikið síðasta árið. Ég fulla trú á að ég geti hjálpað FH. Tímabilið hjá FH var ekkert sérlega gott í fyrra en ég er kominn í FH til að vinna titla. Ég vil stefna á að vinna Íslandsmeistaratitilinn strax á næsta tímabili. Það hjálpar okkur kannski aðeins að við verðum ekki í Evrópukeppni og þar með ætti að verða auðveldra að halda öllum heilum og ferskum. Ég vil fá titilinn aftur í FH og halda honum í nokkur ár,“ sagði Björn.

Varst þú með fleiri tilboð en frá FH?

„Ég fékk samningstilboð frá Val en fyrir mér var FH alltaf fyrsti kosturinn. Fótboltinn er vinna mín og ég þurfti að vega og meta allt dæmið. Ég er virkilega ánægður með hvernig FH stóð að málum. Það vildi virkilega fá mig og sýndi það í verki. Ég er því glaður að vera kominn aftur heim og spila í hvítu treyjunni með Jónsa formann gangandi hinum megin í stúkunni og láta mann heyra það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert