Rauschenberg kominn aftur í Stjörnuna

Martin Rauschenberg í leik með Stjörnunni.
Martin Rauschenberg í leik með Stjörnunni. mbl.is/Golli

Danski miðvörðurinn Martin Rauschenberg er kominn til Stjörnunnar á nýjan leik og hefur skrifað undir þriggja ára samning við Garðabæjarliðið.

Rauschenberg er 26 ára gamall og lék með Stjörnunni tvö tímabil frá 2013-14 og átti góðu gengi að fagna með liðinu.

Frá Stjörnunni fór hann til sænska liðsins Gefle og lék þrjú tímabil með því, þar af tvö í A-deildinni og á síðustu leiktíð spilað hann með sænska A-deildarliðinu Brommapojkarna þar sem hann lék 17 leiki og skoraði í þeim eitt mark.

Rauschenberg er þriðji leikmaðurinn sem Stjarnan fær til liðs við sig í vetur en áður höfðu Stjörnumenn fengið Björn Berg Bryde frá Grindavík og Elís Rafn Björnsson frá Fylki sem báðir eru varnarmenn. Þeir hafa hins vegar misst miðvörðinn Óttar Bjarna Guðmundsson sem er kominn til ÍA.

mbl.is