Alls ekkert skref til baka

Orri Sigurður Ómarsson í Evrópuleik með Valsmönnum á Hlíðarenda.
Orri Sigurður Ómarsson í Evrópuleik með Valsmönnum á Hlíðarenda. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn Orri Sigurður Ómarsson lítur á það sem nýtt tækifæri að koma aftur heim og ganga til liðs Val á nýjan leik eftir eitt ár hjá norska úrvalsdeildarfélaginu Sarpsborg.

Orri skrifaði í dag undir fjögurra ára samning við Valsmenn, sem kaupa hann af norska félaginu, eftir að hafa selt hann þangað haustið 2017. Orri, sem er 23 ára gamall miðvörður, er uppalinn í HK og lék þar 16 ára gamall í 1. deild en var síðan í þrjú ár hjá AGF í Danmörku. Hann gekk til liðs við Val 2015 og lék þar í þrjú ár, spilaði 65 af 66 leikjum Hlíðarendaliðsins í úrvalsdeildinni á þeim tíma og varð tvívegis bikarmeistari og einu sinni Íslandsmeistari.

„Þetta er klárlega nýtt tækifæri og persónulega er þetta alls ekkert skref til baka fyrir mig þar sem tækifærin með Sarpsborg voru lítil sem engin. Ég tók þessa ákvörðun vegna þess að ég þarf að byrja að njóta þess á ný að spila fótbolta og Valur er frábært félag,“ sagði Orri við mbl.is í dag en hann fékk aðeins tækifæri í tveimur leikjum með Sarpsborg í úrvalsdeildinni sem varamaður, og var lánaður til B-deildarliðsins HamKam fyrri hluta tímabilsins þar sem hann lék alla 15 leiki liðsins í fyrri umferðinni í Noregi.

Hann hefur fullan hug á að reyna aftur fyrir sér erlendis ef tækifæri gefst. „Já, það er enn þá planið. Ég tek auðvitað ekki hverju sem er en ég er klárlega tilbúinn til að fara aftur út ef rétta tækifærið býðst. Næsta skref verður bara að vera betur skipulagt. Annars horfi ég núna fyrst og fremst á það að standa mig með Val og við stefnum hiklaust á alla mögulega titla í ár ásamt því að ná langt í Evrópukeppninni," sagði Orri Sigurður Ómarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert