Sex sem gætu spilað fyrsta landsleik

Íslenska karlalandsliðið við æfingar í sólinni í Katar.
Íslenska karlalandsliðið við æfingar í sólinni í Katar. Ljósmynd/KSÍ

Fyrsti leikur ársins hjá A-landsliði karla í knattspyrnu fer fram í dag þegar Ísland mætir Svíþjóð í Katar. Þar sem ekki er um alþjóðlegan leikdag að ræða vantar nær alla fastamenn í liðin.

Svíar tefla fram byrjunarliði þar sem enginn á meira en þrjá A-landsleiki að baki og þrír spila sinn fyrsta leik. Ísland er með Birki Má Sævarsson í sínum hópi en hann gæti spilað sinn 87. landsleik. Arnór Smárason á 24 leiki að baki og Eggert Gunnþór Jónsson 20.

Fjórtán í 23 manna hópnum hafa spilað frá einum og upp í átta landsleiki en sex nýliðar eru með í för og gætu spilað fyrsta landsleikinn. Það eru Eiður Aron Sigurbjörnsson, Davíð Kristján Ólafsson, Axel Óskar Andrésson, Alex Þór Hauksson, Willum Þór Willumsson og Kolbeinn Birgir Finnsson.