Fjölnir vann aftur og meistararnir byrjuðu vel

Guðmundur Karl Guðmundsson í leik með Fjölni síðasta sumar.
Guðmundur Karl Guðmundsson í leik með Fjölni síðasta sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valur og Fjölnir unnu leiki sína á Reykjavíkurmóti karla í knattspyrnu í gærkvöldi. Valur vann 2:1-sigur á Víkingum og Fjölnir hafði betur gegn ÍR, 2:0, í A-riðli mótsins en báðir leikir voru spilaðir í Egilshöllinni.

Fjölnir hefur nú unnið báða leiki sína á mótinu til þessa og fyrstu leiki sína undir stjórn Ásmundar Arnarssonar sem tók við þjálfun liðsins á nýjan leik í vetur. Guðmundur Karl Guðmundsson kom Fjölni yfir strax á 18. mínútu áður en Torfi Tímoteus Gunnarsson innsiglaði sigurinn í síðari hálfleik.

Þá hófu Íslandsmeistarar Vals þátttöku sína á Reykjavíkurmótinu í gær er þeir mættu Víkingum í Egilshöllinni. Valsarar komust í 2:0 á fyrsta stundarfjórðungi leiksins áður en Víkingar klóruðu í bakkann í síðari hálfleik, lokatölur 2:1. Marka­skor­ar­ar úr leikn­um lágu ekki fyr­ir er frétt­in var skrifuð. 

mbl.is