Jafntefli við Eista og Hamrén enn án sigurs

Erik Hamrén leitar enn að sínum fyrsta sigri með íslenska ...
Erik Hamrén leitar enn að sínum fyrsta sigri með íslenska landsliðið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu gerði markalaust jafntefli við Eistland þegar þjóðirnar áttust við í vináttulandsleik í Katar í dag. Ísland gerði 2:2 jafntefli við Svíþjóð á sömu slóðum fyrir helgi og er enn án sigurs undir stjórn Eriks Hamrén.

Ekki er um alþjóðleg­an leik­dag að ræða og því flest­ir leik­menn í ís­lenska hópn­um á mála hjá liðum á Norður­lönd­um. Íslenska liðið var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en náði þó ekki að skapa sér mikið af færum. Eistarnir komust smátt og smátt betur inn í leikinn en þegar flautað var til hálfleiks var staðan markalaus.

Ísland gerði þrjár breytingar í hálfleik og sótti af krafti í upphafi síðari hálfleiks. Liðið fékk nokkur fín færi, meðal annars var varið frá Andra Rúnari Bjarnasyni af stuttu færi og Kolbeinn Birgir Finnsson, sem var einna sprækastur í íslenska liðinu í leiknum, átti fína tilraun rétt utan teigs.

Inn virtist boltinn þó ekki vilja og þess í stað slapp íslenska liðið með skrekkinn þegar stundarfjórðungur var til leiksloka. Eistar sóttu þá og áttu skottilraun sem fór af varnarmanni og þaðan í stöngina á íslenska markinu.

Bæði lið reyndu að koma inn sigurmarki undir lokin en það gekk ekki eftir og niðurstaðan markalaust jafntefli í áttunda leik liðsins undir stjórn Eriks Hamrén.

Þrír leikmenn léku sína fyrstu A-landsleiki. Davíð Kristján Ólafsson spilaði allan leikinn og liðsfélagi hans hjá Breiðabliki, Willum Þór Willumsson, kom inn á í sínum fyrsta leik. Það gerði Alex Þór Hauksson, leikmaður Stjörnunnar, einnig og léku þeir síðustu tuttugu mínúturnar.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Uppfærist sjálfkrafa meðan leikur er í gangi

Allar lýsingar í beinni

Eistland 0:0 Ísland opna loka
90. mín. Leik lokið Markalaust jafntefli niðurstaðan. Erik Hamrén bíður enn eftir sínum fyrsta sigri með íslenska landsliðið.
mbl.is