Jafntefli við Eista og Hamrén enn án sigurs

Erik Hamrén leitar enn að sínum fyrsta sigri með íslenska …
Erik Hamrén leitar enn að sínum fyrsta sigri með íslenska landsliðið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu gerði markalaust jafntefli við Eistland þegar þjóðirnar áttust við í vináttulandsleik í Katar í dag. Ísland gerði 2:2 jafntefli við Svíþjóð á sömu slóðum fyrir helgi og er enn án sigurs undir stjórn Eriks Hamrén.

Ekki er um alþjóðleg­an leik­dag að ræða og því flest­ir leik­menn í ís­lenska hópn­um á mála hjá liðum á Norður­lönd­um. Íslenska liðið var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en náði þó ekki að skapa sér mikið af færum. Eistarnir komust smátt og smátt betur inn í leikinn en þegar flautað var til hálfleiks var staðan markalaus.

Ísland gerði þrjár breytingar í hálfleik og sótti af krafti í upphafi síðari hálfleiks. Liðið fékk nokkur fín færi, meðal annars var varið frá Andra Rúnari Bjarnasyni af stuttu færi og Kolbeinn Birgir Finnsson, sem var einna sprækastur í íslenska liðinu í leiknum, átti fína tilraun rétt utan teigs.

Inn virtist boltinn þó ekki vilja og þess í stað slapp íslenska liðið með skrekkinn þegar stundarfjórðungur var til leiksloka. Eistar sóttu þá og áttu skottilraun sem fór af varnarmanni og þaðan í stöngina á íslenska markinu.

Bæði lið reyndu að koma inn sigurmarki undir lokin en það gekk ekki eftir og niðurstaðan markalaust jafntefli í áttunda leik liðsins undir stjórn Eriks Hamrén.

Þrír leikmenn léku sína fyrstu A-landsleiki. Davíð Kristján Ólafsson spilaði allan leikinn og liðsfélagi hans hjá Breiðabliki, Willum Þór Willumsson, kom inn á í sínum fyrsta leik. Það gerði Alex Þór Hauksson, leikmaður Stjörnunnar, einnig og léku þeir síðustu tuttugu mínúturnar.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Eistland 0:0 Ísland opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti tvær mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert