Elín Metta með tvö mörk í sigri Íslands

Elín Metta Jensen fagnar marki með íslenska landsliðinu.
Elín Metta Jensen fagnar marki með íslenska landsliðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu bar sigurorð af Skotum 2:1 í vináttulandsleik sem fram fór á La Manga á Spáni í dag.

Staðan var markalaus í hálfleik en Elín Metta Jensen úr Val kom Íslendingum yfir á 51. mínútu og hún bætti svo við öðru marki á 54. mínútu með sínu tíunda landsliðsmarki. Skotar minnkuðu muninn þegar Lana Clelland skoraði á lokamínútu leiksins en Skotar tryggðu sér sæti í lokakeppni HM sem fram fer í Frakklandi í sumar.

Þetta var fyrsti leikur íslenska landsliðsins undir stjórn Jóns Þórs Haukssonar sem tók við þjálfun landsliðsins af Frey Alexanderssyni í haust. Alexandra Jóhannsdóttir og Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir markvörður léku sinn fyrsta A-landsleik í dag en þær komu báðar inn á sem varamenn seint í leiknum.

Lið Íslands: (4-5-1): Mark: Sonný Lára Þrá­ins­dótt­ir (Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir 74.) Vörn: Ingi­björg Sig­urðardótt­ir (Elísa Viðarsdóttir 86.), Gló­dís Perla Viggós­dótt­ir, Sif Atla­dótt­ir, Hall­bera Guðný Gísla­dótt­ir (Anna Rakel Pétursdóttir 74.) Miðja: Agla María Al­berts­dótt­ir, Sara Björk Gunn­ars­dótt­ir, Elín Metta Jen­sen, Gunn­hild­ur Yrsa Jóns­dótt­ir (Alexandra Jóhannsdóttir 86.), Fann­dís Friðriks­dótt­ir (Selma Sól Magnúsdóttir 62.) Sókn: Berg­lind Björg Þor­valds­dótt­ir (Svava Rós Guðmundsdóttir 62.)

Næsta verkefni landsliðsins verður þátttaka liðsins á Algarve Cup í Portúgal. Ísland mætir Kanada 27. febrúar og Skotlandi 4. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert