Ekki góð þróun að leikmenn blandi sér í þetta

Geir Þorsteinsson þurfti að játa sig sigraðan í dag.
Geir Þorsteinsson þurfti að játa sig sigraðan í dag. mbl.is/Hari

„Þetta var svolítið eins og að tapa leik illa,“ sagði Geir Þorsteinsson í samtali við mbl.is í dag. Geir tapaði illa fyrir Guðna Bergssyni í formannsslag KSÍ á 73. ársþingi sambandsins á Hilton Reykjavík í dag. 

Geir fékk aðeins 26 atkvæði af 147 og viðurkennir hann að það hafi ekki endilega komið sér á óvart. 

„Ég fann að þetta var brekka og kannski er það reynslan af því að vera oft í tapliði, því miður. Það er kannski búið að móta mann. Ég hef líka notið góðra tíma.

Þetta er búið að vera brekka síðustu vikurnar og svo hafa komið óvænt ummæli síðustu daga sem mér finnst ósanngjörn. Þetta er hluti af nútímanum, allir hafa skoðanir á öllu.

Hart var skotið að Geir úr mörgum áttum fyrir kosningarnar og m.a. af núverandi og fyrrverandi landsliðsfólki. Geir var ekki sáttur við það. 

„Það sem gerist úti í bæ er byrjað að hafa áhrif og leikmenn hafa skoðanir. Mér finnst það ekki góð þróun að leikmenn blanda sér í þetta. Það skapar ekki einingu innan liðsins t.d. ef landsliðsmenn eru ósammála um hver eigi að vera formaður og við erum öll í sama liði.“

Geir er ekki af baki dottinn, þrátt fyrir slæmt tap. 

„Ég mun halda áfram að sinna þróunarverkefnum sem ég hef verið að gera í öðrum heimsálfum. Svo sjáum við bara til. Ég hefði hætt fyrir 30 árum, þegar KR var að tapa úrslitaleikjum, ef ég væri af baki dottinn eftir þetta,“ sagði Geir léttur í bragði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert