Valur Reykjavíkurmeistari 2019

Valskonur fagna Reykjavíkurmeistaratitlinum í Egilshöllinni í kvöld.
Valskonur fagna Reykjavíkurmeistaratitlinum í Egilshöllinni í kvöld. mbl.is/Hari

Valur er Reykjavíkurmeistari kvenna í knattspyrnu árið 2019 en liðið gerði 2:2-jafntefli við KR í lokaumferð mótsins í Egilshöllinni í kvöld. Þórunn Helga Jónsdóttir, fyrirliði KR, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 26. mínútu og Hallbera Guðný Gísladóttir tvöfaldaði forystu Vals á 33. mínútu og staðan því 2:0 í hálfleik.

Fehima Líf Purisevic minnkaði muninn fyrir KR á 75. mínútu áður en Katrín Ómarsdóttir jafnaði metin fyrir Vesturbæinga á 87. mínútu og lokatölur því 2:2. Valur var með fullt hús stiga fyrir lokaumferðina og dugði því jafntefli til þess að tryggja sér sigur á Reykjavíkurmótinu fyrir leik kvöldsins.

Valur lýkur keppni með 13 stig, einu stigi meira en Fylkir, sem hafnaði í öðru sæti eftir 8:1-sigur gegn Fjölni fyrr í dag. Valskonur skoruðu 34 mörk í fimm leikjum á mótinu og fengu aðeins þrjú mörk á sig.

mbl.is