Hermann sótti um hjá KSÍ

Hermann Hreiðarsson er með UEFA Pro-þjálfaragráðu og á að baki …
Hermann Hreiðarsson er með UEFA Pro-þjálfaragráðu og á að baki langan feril sem atvinnumaður og landsliðsmaður. mbl.is/Eggert

„Ég sótti um. Ég er með reynsluna sem þarf í þetta,“ segir Hermann Hreiðarsson sem sótti í haust um stöðu yfirmanns knattspyrnumála hjá KSÍ eftir að starfið hafði verið auglýst.

Hermann, sem á að baki langan feril sem landsliðsmaður og atvinnumaður og hefur síðustu ár þjálfað hér heima og á Indlandi, greindi frá þessu í hlaðvarpsþættinum Miðjunni á Fótbolta.net.

Eftir að hafa auglýst starfið ákvað KSÍ að fresta ráðningu yfirmanns knattspyrnumála fram yfir ársþing sem fram fór um liðna helgi. Nú er útlit fyrir að hægt verði að ganga frá ráðningunni áður en langt um líður en Hermann svaraði þessu aðspurður hvort hann væri bjartsýnn á að fá starfið:

„Ég hef ekki heyrt neitt en auðvitað fylgist maður með og það gætu verið einhverjir aðrir sem að ganga fyrir. Það er allt í lagi. En ég er búinn að sækja um og veit að ég hef helling fram að færa. Ég er með reynsluna; karlamegin, kvennamegin, úti á landi, í borginni og erlendis fyrir utan það að hafa verið í landsliðinu í 20 ár.“

Hermann, sem er 44 ára gamall, lék 15 ár í atvinnumennsku á Englandi eftir að hafa byrjað ferilinn með ÍBV. Eftir að hann lagði skóna á hilluna hefur hann þjálfað karlalið ÍBV og bæði karla- og kvennalið Fylkis, auk þess að vera aðstoðarþjálfari Kerala Blasters á Indlandi.

„Maður tikkar í ansi mörg box alla vega,“ segir Hermann um starf yfirmanns knattspyrnumála. Hann segir ekki skipta höfuðmáli hvort nákvæmlega það stöðugildi verði til hjá KSÍ heldur að sambandið horfi til þess að reyna sífellt að taka framförum á knattspyrnusviðinu:

„Ég held að það sé kannski fullmikið rætt um þetta. Þetta er ekki það sem skiptir höfuðmáli, hvort það sé til akkúrat þessi staða, en menn verða bara að vera á tánum og halda áfram að reyna að vera skrefinu á undan. Að taka alltaf framförum. Það er það sem málið snýst um. Þetta snýst ekki akkúrat um „yfirmann knattspyrnumála“, það á eftir að finna fullkomna starfslýsingu og það er eitthvað sem maður myndi geta tekið þátt í – að þróa þessa stöðu. Það þarf eitthvað til að binda þetta allt saman,“ segir Hermann. Hægt er að hlusta á Hermann í Miðjunni með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert