Kostaboð frá Kínverjum

Eyjamenn fagna marki í leik á síðasta tímabili.
Eyjamenn fagna marki í leik á síðasta tímabili. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Karlalið ÍBV í knattspyrnu hefur fengið kostaboð frá kínversku meisturunum Shanghai SIPG um að mæta þeim í æfingaleik í Dubai.

Samkvæmt heimildum mbl.is barst boðið með mjög stuttum fyrirvara og Eyjamenn urðu að afþakka það þar sem þeir gátu ekki komist til Dubai í tæka tíð. Leikurinn átti að fara fram á morgun, miðvikudag, og ferðalagið og uppihaldið allt greitt af kínverska félaginu. Þeir gátu í fyrsta lagi verið komnir á leikstað á fimmtudag.

Shanghai SIPG er eitt sterkasta félagslið Asíu og með tvo þekkta Brasilíumenn, Oscar og Hulk, innanborðs. Liðið vann kínversku úrvalsdeildina með fimm stiga mun á síðasta ári en féll út í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Asíu gegn verðandi Asíumeisturum Kashima Antlers frá Japan, 3:4 samanlagt.

mbl.is