Blikar eru Faxaflóameistarar

Blikakonur hafa verið afar sigursælar síðustu misseri.
Blikakonur hafa verið afar sigursælar síðustu misseri. Ljósmynd/@blikar_is

Breiðablik fagnaði sigri á Faxaflóamóti kvenna í knattspyrnu en liðið vann alla fimm leiki sína á mótinu.

Íslands- og bikarmeistararnir bæta þar með enn einum titlinum í safnið. Blikar unnu HK/Víking 5:0 í lokaleik sínum á mótinu í kvöld. Landsliðskonan unga Alexandra Jóhannsdóttir skoraði þrennu í seinni hálfleiknum, en Hildur Antonsdóttir skoraði fyrsta mark leiksins á 30. mínútu og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði mark um miðjan seinni hálfleik.

Breiðablik endaði eins og fyrr segir með fullt hús stiga á mótinu en Keflavík kemur næst með 9 stig og Stjarnan er með 6 stig. Selfoss og HK/Víkingur eru með 3 stig og ÍBV 0, en þrjú síðastnefndu liðin eiga eftir að leika sín á milli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert