Grétar Snær og Willard til Víkings Ólafsvíkur

Ejub Purisevic, þjálfari Víkings Ólafsvíkur, er að safna liði.
Ejub Purisevic, þjálfari Víkings Ólafsvíkur, er að safna liði. mbl.is/Árni Sæberg

Víkingur Ólafsvík og FH hafa komist að samkomulagi um að miðjumaðurinn Grétar Snær Gunnarsson gangi liðs við Víking og hefur hann skrifað undir tveggja ára samning við liðið. Þetta kemur fram á Facebook-síðu Víkings Ólafsvíkur.

Grétar Snær, sem er 22 ára gamall og hefur spilað samtals 18 leiki með yngri landsliðunum, var í láni hjá HB í Færeyjum á síðustu leiktíð og varð færeyskur meistari með liðinu undir stjórn Heimis Guðjónssonar.

Grétar spilar sinn fyrsta leik með Víkingum í kvöld þegar þeir mæta Njarðvíkingum í Lengjubikarnum.

Þá hefur Víkingur Ólafsvík samið við Englendinginn Harley Willard. Hann verður 22 ára gamall á árinu. Willard er alinn upp í akademíu Arsenal og síðar Southampton en hefur síðan þá spilað með liðum á Englandi, í Svíþjóð og Asíu. Hann kom til Víkings Ó. á reynslu fyrr í febrúar og lék einn leik með liðinu á fótbolti.net mótinu. Harley er væntanlegur aftur til landsins á næstu dögum og ætti að vera orðinn löglegur þegar Víkingur mætir ÍBV 23. febrúar að því er fram kemur á Facebook-síðu Víkinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert