Líst bara nokkuð vel á þetta

Willum Þór Willumsson í leik með Breiðabliki gegn FH.
Willum Þór Willumsson í leik með Breiðabliki gegn FH. Ómar Óskarsson

Willum Þór Willumsson, einn allra efnilegasti knattspyrnumaður landsins sem hefur vakið verðskulda athygli í leikjum sínum með Breiðabliki, er staddur í Hvíta-Rússlandi þar sem hann er í viðræðum við hvítrússneska meistaraliðið BATE Borisov.

Breiðablik og BATE Borisov hafa komist að samkomulagi um kaupverðið á Willum Þór en miðjumaðurinn ungi á eftir ákveða hvort hann taki tilboði félagsins. BATE er yf­ir­burðalið í Hvíta-Rússlandi og hef­ur unnið meist­ara­titil­inn þar í landi þrett­án ár í röð. Það hefur komist fjór­um sinn­um í riðlakeppni Evr­ópu­deild­ar­inn­ar og fimm sinn­um í riðlakeppni Meist­ara­deild­ar­inn­ar frá 2008.

„Við erum að funda með forráðamönnum félagsins, skoða aðstæður og líta á borgina. Ég er með tilboð í höndunum fá félaginu sem við erum að skoða,“ sagði Willum Þór í samtali við mbl.is í morgun en með honum í för eru faðir hans, Willum Þór Þórsson, og umboðsmaðurinn Ólafur Garðarsson.

Sá BATE vinna Arsenal í gær

„Það hefur verið tekið virkilega vel á móti mér. Aðstæður hér eru flottar og borgin fín. Mér líst bara nokkuð vel á þetta. Þetta er stórt og öflugt félag sem er reglulega í Evrópukeppninni sem er mjög spennandi,“ sagði Willum Þór, sem var á meðal áhorfenda á Borisov-Arena í Borisov í gærkvöld þar sem hann sá BATE Borisov vinna Arsenal 1:0 í fyrri leik liðanna í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

„Þetta var geggjaður leikur og stemningin á leiknum var hrikalega góð. Þetta þóttu frekar óvænt úrslit og ég skemmti mér mjög vel,“ sagði Willum Þór.

„Mér þykir líklegt að ég skoði málin betur þegar ég kem heim,“ sagði Willum en BATE Borisov vill semja við hann til þriggja eða fjögurra ára. Hann er væntanlegur til landsins í kvöld.

Willum Þór er 21 árs gamall og hefur spilað 28 leiki með Breiðabliki í Pepsi-deildinni og skorað í þeim 6 mörk. Hann var í stóru hlutverki með Kópavogsliðinu á síðustu leiktíð þar sem hann skoraði 6 mörk í 19 leikjum í deildinni og var eftir Íslandsmótið útnefndur efnilegasti leikmaður Pepsi-deildarinnar. Hann hefur spilað með U19 og U21 árs landsliðinu og lék sinn fyrsta A-landsleik í janúar þegar hann kom inn á sem varamaður í markalausu jafntefli gegn Eistlandi í vináttuleik sem fram fór í Katar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert