Elín Metta missti pabba sinn hálfu ári fyrir EM

Elín Metta Jensen hefur skorað 10 mörk í 37 A-landsleikjum.
Elín Metta Jensen hefur skorað 10 mörk í 37 A-landsleikjum. mbl.is/Eggert

Elín Metta Jensen, landsliðskona í knattspyrnu, segir frá því í hlaðvarpsþættinum Þegar ég verð stór að hún hafi gengið í gegnum sinn erfiðasta tíma í lífinu undir lok árs 2016 þegar hún missti pabba sinn, Markús E. Jensen.

Markús lést um jólin árið 2016 eftir glímu við krabbamein. Veikindi hans höfðu sitt að segja um að Elín Metta sneri heim úr námi í Bandaríkjunum og hún segir frá því í þættinum að um svipað leyti hafi áhugi hennar á læknisfræðinni kviknað, en Elín Metta er nú á sínu fyrsta ári í læknisfræðinámi við Háskóla Íslands. Eftir á að hyggja segir hún það hafa verið mjög góða ákvörðun að snúa heim til Íslands:

„Ég hafði miklar áhyggjur af pabba á þessum tíma. Ég sá ekki fram á að vera áfram í Bandaríkjunum, þannig að ég þurfti að taka svolítið erfiða ákvörðun, velta því fyrir mér hvort að mér fyndist vera þess virði að vera áfram úti eða eyða einhverjum mánuðum með pabba því hann var orðinn mjög veikur. Ég var ótrúlega sátt með þá ákvörðun að koma heim og sá aldrei eftir því. Síðan tók bara annað við. Læknisfræðidraumurinn var orðinn áþreifanlegri og ég gat einbeitt mér að því,“ sagði Elín Metta í þættinum.

Hann var alltaf til staðar fyrir mig

Annar þáttastjórnenda rifjaði upp þegar þær Elín Metta léku saman hjá Val og hve áberandi stuðningur föður hennar hefði verið:

„Hann studdi mig frá því að ég byrjaði í fótbolta og var alltaf til staðar fyrir mig. Við gátum alltaf talað um fótbolta og ég held að það hafi einhvern veginn hjálpað mér ótrúlega mikið. Ég er honum ótrúlega þakklát fyrir það,“ sagði Elín Metta. „Mér fannst hann vera stundum aðeins of mikið að skipta sér af, og ég held að hann hafi aðeins kúplað sig niður þegar ég bað hann um að slaka aðeins á,“ sagði hún í léttum tóni og bætti við: „Ég er virkilega ánægð með hvað hann nennti þessu, að fylgja mér út um allt og keyra mig á allar æfingar. Ég held að það hafi hjálpað mér mjög mikið. Kannski var það líka þess vegna sem mér fannst svo sjálfsagt að vera í menntaskóla og færa einhverjar fórnir, því ég var alin upp við það að mæta og reyna að standa mig vel.“

Elín Metta Jensen skoraði í fræknum sigri á Þjóðverjum haustið ...
Elín Metta Jensen skoraði í fræknum sigri á Þjóðverjum haustið 2017. Ljósmynd/ A2/ Peter Hartenfelser

Læknisnámið lokar ekki á atvinnumennsku

Elín Metta kveðst aðspurð ekki útiloka að fara í atvinnumennsku, þrátt fyrir að hún sé byrjuð í afar krefjandi námi:

„Mig langar ekkert að útiloka það enn þá. Mig langaði það mjög mikið þegar ég var lítil [að fara í atvinnumennsku]. Ég ætlaði alltaf að verða atvinnukona í fótbolta. En ég ætla svona að sjá hvernig námið fer af stað með boltanum. Mér finnst algjör óþarfi að útiloka það núna, ég er enn þá ung og finnst skemmtilegt í fótbolta svo það er ekkert útilokað,“ sagði Elín Metta. Hún fór yfir margt í þættinum og svaraði því til að mynda hver hennar erfiðasta stund á fótboltavellinum hefði verið, þegar dæmd var á hana vítaspyrna í fyrsta leik á EM sumarið 2017, hálfu ári eftir að pabbi hennar féll frá:

„Mér fannst mjög erfitt þegar ég fékk á mig víti á móti Frakklandi, eftir að ég kom inn á á EM [sumarið 2017]. Mér fannst ég einhvern veginn gera allt rétt og mér fannst þetta svo ótrúlega ósanngjarn dómur – ég var ekki sammála honum, en þetta var mjög erfitt. Við töpuðum leiknum 1:0 út af þessu víti. Sama haust upplifði ég svo bara bestu stund mína með landsliðinu þegar ég skoraði á móti Þýskalandi. Það hafði mikil áhrif á mig að upplifa svona mikla lægð, og ná svo að komast upp úr því og eiga svona geggjaða stund eins og að vinna Þýskaland. Það var algjör draumur og mikil hvatning fyrir mig, að sjá hvað er stutt á milli í þessu. Það voru bara nokkrir mánuðir þarna á milli.“

Viðtalið við Elínu Mettu má heyra með því að smella hér.

mbl.is