Íslenskur markvörður til Bournemouth

Rafal Stefán Daníelsson hefur verið varamarkvörður í meistaraflokki Fram en …
Rafal Stefán Daníelsson hefur verið varamarkvörður í meistaraflokki Fram en hefur nú verið lánaður til Bournemouth. Ljósmynd/fram.is

Markvörðurinn ungi Rafal Stefán Daníelsson hefur verið lánaður frá Fram til enska úrvalsdeildarfélagsins Bournemouth og gildir samningurinn til loka þessarar leiktíðar.

Rafal er aðeins 17 ára gamall og mun að mestu leyti æfa með U21-liði Bournemouth eftir því sem fram kemur á heimasíðu félagsins. Þar segir jafnframt að Bournemouth eigi þess kost að kaupa leikmanninn þegar lánssamningurinn renni út í sumar.

Rafal, sem er fæddur og uppalinn í Neskaupstað og hóf feril sinn með fjarðabyggð, kom til liðs við Fram 12 ára gamall. Hann hefur verið valinn í úrtakshópa fyrir yngri landslið Íslands og auk þess farið utan til reynslu og æfinga hjá unglingaliðum ensku stórliðanna Liverpool og Everton.

Rafal fór til Bournemouth til reynslu í janúar og stóð sig greinilega vel úr því að félagið hefur nú fengið hann að láni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert