Kristján Flóki í pólsku úrvalsdeildina

Kristján Flóki Finnbogason er að verða leikmaður Arka Gdynia.
Kristján Flóki Finnbogason er að verða leikmaður Arka Gdynia. Ljósmynd/arka.gdynia.pl

Knattspyrnumaðurinn Kristján Flóki Finnbogason hefur náð samkomulagi um samning við pólska úrvalsdeildarfélagið Arka Gdynia og verður leikmaður félagsins svo fremi að ekkert óvænt komi út úr læknisskoðun.

Flóki gerði samning við Arka Gdynia sem gildir fram í lok júní en með möguleika á framlengingu um tvö keppnistímabil. 

Flóki, sem er uppalinn FH-ingur, var síðast á mála hjá Start í Noregi en þaðan var hann lánaður til Brommapojkarna í Svíþjóð á síðasta ári. Flóki er 24 ára gamall og hefur einnig verið leikmaður FC København án þess þó að spila fyrir aðallið félagsins. Þessi stæðilegi framherji á að baki 4 A-landsleiki.

Arka Gdynia er í neðri helmingi pólsku úrvalsdeildarinnar en liðið situr í 11. sæti af 16 liðum með 25 stig eftir 22 umferðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert