ÍBV sektað vegna þriggja ólöglegra leikmanna

Sigríður Lára Garðarsdóttir var ekki lögleg með ÍBV gegn Val.
Sigríður Lára Garðarsdóttir var ekki lögleg með ÍBV gegn Val. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV þarf að greiða KSÍ 120.000 króna sekt eftir að félagið tefldi fram þremur ólöglegum leikmönnum í 7:1-tapi gegn Val í Lengjubikar kvenna í knattspyrnu á dögunum.

Sigríður Lára Garðarsdóttir, Sara Suzann Small og Mckenzie Grossmann léku allar fyrir ÍBV í leiknum þrátt fyrir að vera skráðar í erlend félög. Sigríður Lára er komin aftur til ÍBV eftir dvöl hjá Lillestrøm í Noregi á seinni hluta síðustu leiktíðar en erlendu leikmennirnir tveir eru nýir í herbúðum Eyjaliðsins.

Samkvæmt reglugerð KSÍ um deildabikarinn þarf félag að greiða sekt upp á 30.000 krónur fyrir að tefla fram ólöglega skipuðu liði og svo 30.000 krónur fyrir hvern leikmann sem ekki hefur keppnisleyfi með viðkomandi félagi og tekur þátt í leiknum. Samtals þarf ÍBV því að greiða 120.000 krónur.

Úr því Valur vann leikinn 7:1 standa þau úrslit. ÍBV hefði verið dæmdur 3:0-ósigur ef liðið hefði ekki tapað svo stórt.

mbl.is