Jón Rúnar hættir sem formaður FH

Jón Rúnar Halldórsson á sinn þátt í því hve háum ...
Jón Rúnar Halldórsson á sinn þátt í því hve háum stalli karlalið FH í knattspyrnu hefur verið á á þessari öld. mbl.is/Hari

Jón Rúnar Halldórsson, sem verið hefur formaður knattspyrnudeildar FH frá lokum keppnistímabilsins 2005, lætur af því starfi í kvöld.

Sparkspekingurinn Hjörvar Hafliðason greindi frá því á Twitter í dag að Jón Rúnar væri hættur en í samtali við mbl.is vildi sá síðarnefndi lítið tjá sig um málið. Hann sagði þó að hann væri á leið á aðalfund knattspyrnudeildar í kvöld og bætti við; „Það gæti vel verið að það verði einhver tímamót í mínu lífi.“ Viðar Halldórsson, formaður aðalstjórnar FH og bróðir Jóns Rúnars, hefur svo staðfest við Fótbolta.net að Jón Rúnar sé að hætta.

Jón Rúnar tók við af Guðmundi Árna Stefánssyni sem formaður knattspyrnudeildar FH árið 2005, eins og fyrr segir, og með hann í brúnni hefur FH náð sínum hæstu hæðum; komist langt í Evrópukeppnum og unnið til fjölda titla. FH endaði hins vegar í 5. sæti Pepsi-deildarinnar á síðasta tímabili og missti af Evrópusæti í fyrsta sinn í stjórnartíð Jóns Rúnars, sem áður en hann varð formaður í annað sinn árið 2005 hafði verið í eða viðloðandi stjórn FH um tveggja áratuga skeið.

 Uppfært: Valdimar Svavarsson verður nýr formaður knattspyrnudeildar FH en hann er sá eini sem bauð sig fram áður en frestur til þess rann út fyrir þremur dögum. Þetta staðfesti Viðar Halldórsson, formaður aðalstjórnar FH, við Fótbolta.net.

mbl.is