Stelpurnar með gott veganesti til Ítalíu

Íslenska liðið fagnar einu marka sinna gegn Írlandi í dag.
Íslenska liðið fagnar einu marka sinna gegn Írlandi í dag. mbl.is/Eggert

Ísland vann annan öruggan sigur á Írlandi þegar þjóðirnar mættust í vináttulandsleik í knattspyrnu U17-kvenna í Kórnum í dag. Lokatölur í dag urðu 5:2 en Ísland vann 3:0 á mánudaginn.

Leikirnir eru liður í undirbúningi U17-landsliðs Íslands fyrir leiki í milliriðli EM sem fram fara 21.-27. mars á Ítalíu. Ísland mætir þá Ítalíu, Danmörku og Slóveníu.

Hafrún Rakel Halldórsdóttir, Arna Eiríksdóttir og Ída Marín Hermannsdóttir skoruðu fyrir Ísland í fyrri hálfleik en staðan í hálfleik var 3:1. Írar minnkuðu muninn í 3:2 þegar hálftími var til leiksloka en Andrea Rut Bjarnadóttir og Ólöf Sigríður Kristinsdóttir innsigluðu sigur íslenska liðsins.

Þórhildur Þórhallsdóttir úr Víkingi með boltann í leiknum í Kórnum ...
Þórhildur Þórhallsdóttir úr Víkingi með boltann í leiknum í Kórnum í dag. mbl.is/Eggert
mbl.is