Siggi Raggi nálægt því að taka við Ástralíu

Sigurður Ragnar Eyjólfsson þjálfaði síðast kínverska kvennalandsliðið.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson þjálfaði síðast kínverska kvennalandsliðið.

Sigurður Ragnar Eyjólfsson kom sterklega til greina sem nýr þjálfari kvennalandsliðs Ástralíu í knattspyrnu og hefði þá stýrt liðinu á heimsmeistaramótinu í Frakklandi næsta sumar.

Þeta er fullyrt á vef The Sydney Morning Herald þar sem segir að Sigurður Ragnar hafi verið næstur í röðinni á eftir Ante Milicic sem á endanum varð fyrir valinu, og að mjótt hafi verið á munum milli þeirra. Milicic hefur ekki þjálfað kvennalið áður en hann hefur til að mynda verið aðstoðarþjálfari karlaliðs Ástralíu á tveimur heimsmeistaramótum, árin 2014 og 2018.

Sigurður Ragnar náði frábærum árangri sem landsliðsþjálfari Íslands og stýrði liðinu meðal annars í 8-liða úrslit á EM 2013 sem er besti árangur í sögu liðsins. Ástralska knattspyrnusambandið hefur áður verið með hann í sigtinu en sambandið vildi fá hann sem aðstoðarmann yfirmanns knattspyrnumála á sínum tíma. Sigurður Ragnar hafnaði því til að gerast aðstoðarþjálfari Rúnars Kristinssonar hjá karlaliði Lillestrøm í Noregi.

Eftir að hafa verið hjá Lillestrøm árin 2014-2016 fór Sigurður Ragnar til Kína og tók við kvennaliði Jiangsu Suning, og hann stýrði svo kínverska kvennalandsliðinu á árunum 2017-2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert