Árni hungraður á ótroðnar slóðir

Árni Vilhjálmsson verður fyrstur Íslendinga til að spila í úkraínsku …
Árni Vilhjálmsson verður fyrstur Íslendinga til að spila í úkraínsku úrvalsdeildinni. mbl.is/Árni Sæberg

Árni Vilhjálmsson hefur tekið stórt skref upp á við á sínum ferli en hann er genginn til liðs við Chornomorets í Úkraínu. Hann verður að öllum líkindum í leikmannahópnum sem mætir hinu þekkta meistaraliði Shakhtar Donetsk í úkraínsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á laugardaginn.

Árni er áfram samningsbundinn pólska félaginu Termalica Nieciecza til 2021 en kemur að láni til Chornomorets fram á sumar. Þessi 24 ára fyrrverandi framherji Breiðabliks kom til Póllands frá Jönköping í Svíþjóð síðasta haust en hefur nú fært sig enn austar. Fyrstu kynnin af Chornomorets hafa verið góð:

Mættur til „Ibiza Austur-Evrópu“

„Ég kom hingað í fyrradag en maður er alltaf að átta sig betur og betur á því hvað þetta er stórt dæmi. Félagið og þessi staður lofa mjög góðu. Raunar hafði ég nú bara einhverja átta tíma til að undirbúa mig áður en ég hoppaði upp í flugvél. Ég er svo bara búinn að vera uppi á hóteli, í læknisskoðun og að tala við liðið. En þetta er æðislegur staður, eins konar sumardvalarstaður fyrir Rússa og Úkraínumenn hérna við Svartahafið, sem þeir kalla „Ibiza Austur-Evrópu“. Þetta er ansi fallegur staður á sumrin til að vera á,“ segir Árni við mbl.is, léttur í bragði, en liðið er frá hafnarborginni Odessa við Svartahaf.

Hann rennir ekki alfarið blint í sjóinn þrátt fyrir að vera fyrsti íslenski knattspyrnumaðurinn til að semja við félag í Úkraínu:

„Ég eignaðist góðan vin í Póllandi sem er frá Úkraínu og hann gat sagt mér allt um þetta lið og deildina hérna. Ég var því ágætlega undirbúinn fyrir þetta. En ég er vissulega fyrsti Íslendingurinn til að spila hérna og veit því ekkert allt of mikið um það út í hvað ég er að fara, annað en að þetta er toppdeild og stórt skref upp á við fyrir mig. Það var því ekki annað í stöðunni en að segja já við þessu,“ segir Árni.

Árni Vilhjálmsson með treyju Termalica Nieciecza, sem hann samdi við …
Árni Vilhjálmsson með treyju Termalica Nieciecza, sem hann samdi við í haust. Hann er með samning við félagið sem gildir til 2021. Ljósmynd/termalica.brukbet.com

Búinn að vera skrýtinn tími

Árni fékk ekki ýkjamörg tækifæri hjá Termalica í pólsku B-deildinni en nýtti sínar mínútur vel hjá liðinu og það skilaði sér:

„Þjálfarinn hérna hjá Chornomorets hefur verið að fylgjast með mér. Ég spilaði einhverja sjö leiki í Póllandi og skoraði í þeim fjögur mörk, spilaði til að mynda stóran leik í bikarnum við Cracovia [eitt betri liða úrvalsdeildarinnar] og skoraði bæði mörkin í sigri. Það myndaðist mikill áhugi eftir þetta og þeir hjá Chornomorets sannfærðust um að ég væri rétti maðurinn fyrir þá miðað við hvernig þeir spila,“ segir Árni, sem hefði þó viljað fá að spila meira í Póllandi:

„Þetta er búinn að vera skrýtinn tími. Ég kom til félagsins eftir að þjálfarinn hafði talað mig inn á það, og allt leit mjög vel út, en viku síðar var hann rekinn og nýr þjálfari kom inn með aðrar áherslur. Hann vildi meiri kraftafótbolta, með stóran og sterkan framherja, og þar af leiðandi var ég kannski ekki týpan sem hann leitaðist eftir. En ég náði að skora fjögur mörk á þeim mínútum sem ég fékk að spila og það hjálpaði mikið til. Maður fékk aðeins færri leiki og mínútur en maður hafði vonast til og búist við í Póllandi, en að fá skref upp á við eftir þetta fáar mínútur gerir mann bara enn hungraðri og graðari í að gera vel hérna,“ segir Árni.

Fyrsti leikur á móti meisturunum

Árni verður annar af aðeins tveimur útlendingum í liði Chornomorets, og hinn útlendingurinn er Rússi. Hugsanlegir tungumálaörðugleikar eru hins vegar ekki eitthvað sem framherjinn setur fyrir sig:

„Ég hitti þjálfarann í fyrradag. Hann er frá Búlgaríu og það hjálpar mikið til að hann sé líka „útlendingur“. Hann talar bæði ensku og rússnesku. Þjálfari minn og aðstoðarþjálfari í Póllandi töluðu til að mynda ekki ensku og það var svolítið erfitt, en lærdómsríkt líka,“ segir Árni, sem gæti spilað sínar fyrstu mínútur á laugardaginn eins og fyrr segir, gegn Shakhtar. Chornomorets er í 11. sæti af 12 liðum í deildinni, með 15 stig eftir 19 leiki og fjórum stigum á eftir næsta liði.

„Það er ágætisbyrjun að byrja bara á móti þeim bestu. Það vita allir hve sterkt lið Shakhtar Donetsk er eftir að hafa séð liðið í hverri viku í Meistaradeildinni og Evrópudeildinni. Þetta verður alvöruleikur og félagaskipti mín verða klár fyrir hann,“ segir Árni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert